Topp 100 listi Hilmars (2022) - 80-71

Tvö ný, mikið af hástökkvurum og tvö spil sem falla aðeins niður á listann einkennir þennan bunka af topp X.

# 80
Mynd
Archravels

Archravels

2021: # 205

Litríkt og skemmtilegt spil með þema sem er ekkert allt of oft notað í borðspilum, amk. ekki með svona góðum árangri. Í spilinu eru fjórir, ósamhverfir einstaklingar til að velja úr. Þú ferð og kaupir garn, prjónar mjúka birni, þægileg teppi og fallega trefla auk þess að uppfylla stundum alveg einstakar beiðnir. Kláraðu að búa til uppskriftir, ljúka við verkefnin og að lokum fá stig að launum. Þegar verkefnalistinn klárast er spilinu lokið og sá einstaklingur með flest stig vinnur.

Ég bakkaði þetta spil á sínum tíma því fyrrverandi kona mín er mikil prjónakona en ekki alveg jafn mikill borðspilari þó svo að hún spili svolítið. Spilið hitti svona rosalega í mark, bæði hjá henni og mér og það er alveg frábært hvernig hægt var að bræða saman gangverk og þema með þessum árangri.

# 79
Mynd
Hadrians Wall

Hadrian's Wall

Nýtt á lista

Þegar Rómverski riddarinn Hadrian Augustus var að heimsækja Norður Brittaniu árið 122 e.kr. varð hann vitni að eftirmálum stríðsins á milli herja sinna og hinna skosku villimanna. Til að sýna hinn mikla styrk Rómverja lét hann reisa vegg sem myndi skilja að Skotanna frá restinni af Englandi.

Stundum nefnt eitt af flóknari "rúlla-og-skrifa" (fletta-og-skrifa) spilum. Þú flettir spilum og færð mismunandi litaða verkamenn til að nota á öðru af tveimur blöðum sem þú færð. En um leið og þú eyðir verkamanni af einum lit getur þú fengið verkamann af öðrum lit. Keðjuverkun á eftir keðjuverkun þangað til spilinu líkur.

Eitt af fáu spilum sem ég get spilað einn án þess að týnast í hvar ég er í aðgerðaröðinni. Er líka skemmtilegt þegar fleiri eru að spila, en spilið er samt meira eins og kapall en nokkuð annað, það er lítið sem tengir þig saman við aðra spilara. Þrælgott spil samt og tekur virkilega á þær gráu.

# 78
Mynd
Empires of the Void II

Empires of the Void II

2021: # 58

Þú hefur fengið það verkefni að festa tilveru þína við jaðar vetrarbrautarinnar fyrir veldi þitt. Leikurinn hefst þegar risastór geimskipin nálgast jaðarinn, hvar þú þarft að kanna, há stríð, nota samningatækni og byggja byggingar til að öðlast sigur. Jaðarinn er frekar strjálbýll og þær fáu tegundir sem búa hér eru í baráttu við að lifa af, sem skilur eftir risastór landsvæði til að kanna og nema land á. Margar tegundirnar eru ákafar í að tengjast kröftugum heimsveldum til að öðlast öryggi og stöugleika á þessum erfiðu tímum.

Þetta spil var eitt af þeim sem fékk mig til að uppgötva að mér hugsanlega líkar við "stríðsspil". Auðvitað er miklu meira í gangi í spilinu, það hefur flesta eiginleika svokallaðra 4X spila en leggur samt ekki ofuráherslu á bardaga. Gullfallegar myndir Ryan Laukart draga mig líka að spilinu ásamt skemmtilegu gangverki. Ég spila spilið ekki nógu oft en þegar það dettur á borðið rifjast upp fyrir mér hvað það er gott.

# 77
Mynd
Terramara

Terramara

2021: # 54

Terramara eru þorp sem stofnuð voru um 1500 f.Kr. á Norður-Ítalíu. Fólk lifði, ferðaðist og verslaði milli Alpafjallgarðsins og árinnar Po. Helstu störf Terramara-fólksins voru veiðar, búskapur og málmvinnsla og steypa bronsverkfæri eins og axarhausa í steinmót. Húsin í þorpunum voru byggð á hrúgum, sem þýðir að hvert hús er borið uppi með tréstaurum.

Í Terramara spilar þú sem höfðingi ættar sem býr í einu af þessum þorpum. Markmið þitt er að þróa ættina, kanna lönd til að eiga viðskipti við önnur þorp og ná til helgra staða. Þú bætir bardagastyrk og uppgötvar nýja tækni til að búa til gagnlega gripi.

Það sem greip mig strax í þessu spili er ákveðinn snúningur á verkamannagangverkið. Leikmenn hafa aðgang að aðgerðum sem þeir hafa uppgötvað og í hverri umferð uppgötvar þú fleiri aðgerðir sem um leið eru betri. En þú getur líka sent verkamann lengra í burtu til að gera aðgerð sem er miklu betri en þær sem eru í boði núna. Kostnaðurinn er að þú færð ekki verkamanninn til baka fyrr en sú aðgerð verður aðgengileg öllum. Því getur þú grætt á því að gera aðgerðina en þú hefur færri verkamenn til að nota þangað til hinn kemur til baka.

Ekki skemmdi fyrir að ég fékk kennslu á spilið á Essen 2019 frá sjálfum Eric Summerer og lifir sú minning góðu lífi.

# 76
Mynd
Lost Ruins of Arnak

Lost Ruins of Arnak

2021: # 111

Lost Ruins of Arnak sameinar stokkasmið og verkamannagangverk í leik könnunar, auðlindastjórnunar og uppgötvunar. Auk áhrifanna sem hefðbundinn stokkasmiður hefur er einnig hægt að nota spil til að setja út verkamenn og nýjar aðgerðir verkamannanna verða aðgengilegar þegar leikmenn skoða eyjuna. Sumar þessara aðgerða krefjast peninga í stað verkamanna, svo að þú verður líka að byggja upp traustan auðlindagrunn. Þú færð aðeins aðeins eina aðgerð í hverri umferð, svo veldu vandlega... hvaða aðgerð mun gagnast þér best núna? Og hvað hefurðu efni á að gera seinna... að því gefnu að einhver annar grípi ekki aðgerðina fyrst!?

Ég er í hópi þeirra sem finnst Lost Ruins of Arnak betra en Dune: Imperium (jebb, ég sagði það!). Ég tengi miklu meira við ævintýraþemað í frumskóginum heldur en sandormana á Arrakis. Þó svo að það sé meiri einstefna í LRoA, ef þú ferð ekki upp metorðastigan hægra megin muntu tapa, þá er samt eitthvað svo heillandi við þennan ævintýraheim. Einnig er skemmtilegt að þegar í upphafi leiks færðu fleiri spil sem aðstoða þig við könunina en þegar líður á leikinn fara endastigsspilin að verða fleiri. Alltaf gaman þegar spilunum er stjórnað af meiri nákvæmni en með stokkun.

# 75
Mynd
Watergate Box Cover

Watergate

2021: # 84

Baráttan á milli góðs og ills. Nixon á móti blaðamönnunum. 

Watergate er reipitogsspil byggt á sönnum atburðum. Það er algjörlega ósamhverft, blaðamennirnir eru að reyna að koma upp um Nixon og Nixon er að reyna að þrauka nógu lengi til að halda út kjörtímabilið. Sá sem hefur frumkvæðið fær fimm spil, hinn leikmaðurinn fjögur. Þú spilar út spilum, annað hvort til að fá minni aðgerðina, sem er venjulega að færa merki til á borðinu (reipitogið) eða þú færð einhvern ofurkraft en þarft að henda spilinu úr leiknum á eftir. Allar þær aðgerðir eru það sterkar að mani finnst spilið vera brotið, en auðvitað er slíkur styrkur hjá báðum aðilum. 

Hver spilun af Watergate hefur verið í járnum fram á síðustu sekúndu. Þetta er alveg frábært tveggja manna spil og mér finnst þemað ná að skína í gegn. Sýnir að það er alveg hægt að setja þema á eitthvað sem gæti líka verið alveg abstrakt.

# 74
Mynd
Smartphone Inc

Smartphone Inc

2021: # 86

Í Smartphone Inc ertu framkvæmdarstjóri í einu af stærstu fyrirtækjum sem framleiða snjallsíma á þeim tíma sem snjallsímar voru að ryðja sér til rúms. Þú þarft að rannsaka nýja tækni, þróa verksmiðjuna, byggja upp net af skrifstofum og verðleggja tækin rétt til að hagnast sem mest og verða eitt stærsta snjallsímafyrirtækið í heiminum.

Það er margt sem heillar í þessu frábæra spili, ekki síst kannski að það verður betra með fleiri spilurum og það er ekkert mál að spila það fimm manna. Aðgerðavalið, með því að leggja saman tvær flísar og fá þær aðgerðir sem sjást við þær æfingar er líka mjög heillandi. Spilið er næstum allt spilað á sama tíma, þannig að biðtími á milli leikmanna er næstum enginn. 

# 73
Mynd
Valeria: Card Kingdoms

Valeria: Card Kingdoms

2021: # 32

Hjörð af skrímslum leggur land Valeria í umsátur. Þú og aðrir hertogar verðið að ráða almenna borgara og kaupa lén til að byggja upp konungsríkið til að drepa skrímslin sem leynast í löndunum í kring.

VCK notast við gangverk sem kom fram m.a. í Machi Koro og seinna í Space Base og Bad Company. Þú kastar tengingum og virkjar þá borgara sem hafa gildin sem koma upp á teningunum. Ólíkt MK og líkt SB og BC þá virkjast fyrst annar tengingurinn, svo hinn og að lokum samtala tveggja. Þannig að 4 og 5 munu virkja borgara fjögur, fimm og níu (gefið að þú eigir þá). 

VCK kassinn minn er orðinn stór og þungur, allar viðbæturnar eru í honum og því mikið af valmöguleikum og auka gangverki. En hvort sem það er spilað bara sem grunnspil eða með viðbótunum þá er það alltaf hin mesta skemmtun. Og aftur ströggla ég á móti straumnum, VCK er töluvert hærra en Space Base ;-)

# 72
Mynd
Eleven: Football Manager Board Game

Eleven: Football Manager Board Game

Nýtt á lista

Ellefu - fjöldi leikmanna sem mega vera inni á leikvellinum á sama tíma. Val leikmanna skiptir öllu máli til að búa til besta liðið, en um leið getur  það orðið það versta. En til að liðið geti orðið það besta í deildinni þarf það meira en leikmenn; það þarf líka að hafa frábæran stjóra...

Spil sem ég stökk á um leið og ég sá það á KS, þar sem það sameinar vel þema og aðgerðir. Í hverri viku hefur þú þrjá daga (þri-fim) til að ráða til þín nýtt starfsfólk sem aðstoðar þig við að reka liðið og á föstudögum er leikdagur þar sem þú keppir á móti öðrum liðum í deildinni. Og það skiptir ekki bara máli hvaða leikmenn eru á vellinum heldur hvaða stöðu þeir spila. Mjög áhugaverð nálgun á íþróttaspil. Í flestum tilfellum hafa þau magalent hressilega en Portal Games tókst að búa til spil sem nær að halda bæði áhugaverðu gangverki og þema. Spilið rýkur upp listann hjá mér þrátt fyrir að hafa bara komið út í fyrra.

# 71
Mynd
The Hunger

The Hunger

2021: # 102

The Hunger er kapphlaup þar sem hver vampíruspilari verður að fínstilla stokkinn sinn, veiða menn til að ná stigum, uppfylla leynileg verkefni og að lokum eignast rós og snúa aftur í kastalann fyrir sólarupprás. Því meira sem þú veiðir, því hægari verður bæði þú og stokkurinn, sem mun gera það erfiðara og erfiðara að komast til baka áður en dagur rís. Geturðu orðið alræmdasta vampýran án þess að brenna til ösku við sólarupprás?

Hér er það klárlega gangverkið sem heillar. Það hvernig þú kaupir spil í stokkinn, rétt spil á réttum tíma, er lykilatriði og ef þú tekur stigaspilin of snemma getur þú lent í því að festast og ekki ná til kastalans í tíma. Stokkasmiðir eru mikið uppáhalds og þetta klórar á mörgum stöðum.