Topp 100 listi Hilmars (2022) - 100-91

Eins og margir aðrir sem framleiða efni um borðspil hef ég gaman af því að gera Topp 100 lista. Reyndar svo mikið að minn listi er næstum 300 færslur. En ég ætla bara að birta Topp 100 í svona fínum lista, kannski ég búi til lista frá 101-200 en hann verður ekki eins nákvæmur.

# 100
Mynd
Detective: A Moder Crime Board Game

Detective: A Modern Crime Board Game

2021: # 83

Í Detective: A Modern Crime Board Game ertu að leysa fimm mismunandi mál og komast að því hvað tengir þau. Þú rýfur 4. vegginn með því að nota allar heimildir sem þú getur, flettir í gagnabanka leiksins sem líkir eftir gagnabanka lögreglunnar, þú ferð inn í völundarhús gamalla ráðgáta og nýrra glælpa og vinnur með öðrum spilurum að lausn ráðgátunnar.

Ég hef einstaklega gaman af glæpasögum og glæpamálum, CSI þættirnir í sjónvarpinu og sambærilegir finnst mér einstaklega skemmtilegir, þannig að þetta spil tikkar í mörg box.

# 99
Mynd
Carnegie

Carnegie

Nýtt á lista

Carnegie er byggt á ævi Andrew Carnegie sem var fæddur í Skotlandi árið 1835. Andrew Carnegie og fjölskylda hans fluttust til Bandaríkjanna 1848. Þó svo að hann hafi hafið feril sinni sem símaritari er hans helst minnst sem einn af aðal máttastólpunum í uppbyggingu á stáliðnaðinum í Bandaríkjunum en það gerði hann að einum ríkasta manni veraldar og táknmynd ameríska draumsins.

Í leiknum ertu að ráða og ráðstafa starfsfólki, stækka viðskiptaveldið, fjárfesta í fasteignum, selja vörur og byggja upp verslunarleiðir yfir Bandaríkin. Spilaðar eru tuttugu umferðir og hver leikmaður velur eina aðgerð í umferð. En þegar sá sem er að gera velur aðgerð geta hinir valið að fylgja eftir og því getur verið smá trikk að velja aðgerð sem gagnast bara þér en ekki öðrum. Í lok leiks vinnur sá sem er með flest stig.

# 98
Mynd
Founders of Gloomhaven

Founders of Gloomhaven

2021: # 194

Founders of Gloomhaven er flísalagningaspil þar sem við erum að reyna að byggja upp borgina Gloomhaven. Spilið er sjálfstætt spil en gerist í Gloomhaven heiminum. Atburðirnir í spilinu gerast þó einhverjum hundruðum árum fyrir viðburðina í Gloomhaven spilinu og lýsir uppbyggingu borgarinnar.

Spilið fékk gagnrýni fyrir að vera mjög frábrugðið Gloomhaven, enda var höfundurinn kannski að reyna ná einhverri sölu byggðri á nafninu Gloomhaven. Það breytir því þó ekki að mér finnst spilið hin besta skemmtun, það er fjölbreytt og stigaskorunin er einstaklega áhugaverð, þar sem aðrir leikmenn gætu fengið hluta af stigunum sem þú færð fyrir að byggja byggingu, ef hún þarfnast auðlinda frá byggingum sem þú byggðir.

# 97
Mynd
Near and Far

Near and Far

2021: # 65

Í Near and Far, fara þú og allt að þrír vinir að kanna mörg mismunandi kort í leit að síðustu rústunum, ráða aðrar hetjur, leita að fjársjóðum og keppa um að vera sá ferðalangur sem getur sagt bestu sögurnar. Þú þarft að safna mat og tólum í bænum fyrir hinar löngu ferðir á dulræna staði og ekki gleyma vopnunum til að berjast við bófa og ræningja! Stundum á ferðalaginu muntu rekast á eitthvað alveg einstakt og þá mun einn af vinum þínum lesa fyrir þig upp úr sögubókinni og gefa þér möguleika á að bregaðst við og þar að leiðandi búa til frábærar minningar um söguna í hvert sinn sem þú spilar.

Ég er bara búinn að spila Near and far tvisvar, en sagan og teikningarnar gripu mig strax. Spilið er bæði einstaklega fallegt, a la Ryan Laukart en sagan er líka einstaklega vel skrifuð og unun að hlusta á hana. Ég nota Forteller smáforritið til að lesa fyrir mig textann og það gefur spilunninni einstakt gildi.

# 96
Mynd
Quacks of Quedlinburg, The

The Quacks of Quedlinburg

2021: # 61

Spilið sem Davíð í Pant vera blár getur bara ekki borið fram :-)

Í Quacks of Quedlinburg, eða Skottulæknar frá Selfossi, í frábærri þýðingu Þorláks Lúðvíkssonar, eru spilarar að leika skottulækna. Hver og einn er að brugga seið í potti og gera það með að draga flísar úr poka, eina í einu. En farðu varlega! Ef þú dregur of margar hvítar flísar úr pokanum springur potturinn og allt sullast út um allt!

Mér finnst stundum valið á Kennerspiel spilunum vera skrítið, stundum eru spilin rétt í byrjunarflokki, en árið 2018 var valið nokkuð gott. "Quacks" er frábært spil, rétt fyrir ofan inngangsflokkinn, með rétt nógu mörgum reglum til að óvanir spilarar fást til að spila það en samt alveg nóg fyrir þá sem spila mikið að finnast það líka gott. Þessi tilfinning að sækja bara eina flögu í viðbót .... hún er fjári góð. Og það skemmir ekki fyrir að jafnvel þó svo að potturinn springi þá er ekki allt ónýtt. Og það er líka frábær leið fyrir þá til að dragast afturúr til að ná hinum, því á stigaborðinu eru nokkrar rottur og ef þú ert x rottuhölum á eftir fremsta leikmanni færðu forgjöf í næstu umferð. Æðisleg leið til að halda í hina.

Ég spila Quacks amk. þrisvar, fjórum sinnum á ári og finnst það alltaf skemmtilegt.

# 95
Mynd
Dice Hospital

Dice Hospital

2021: # 44

Dice Hospital er í grunninn verkamannaspil. Leikmenn reyna að lækna sem flesta sjúklinga til að gleðja borgarfulltrúa svæðisins. Þú notar starfsfólk spítalans á einstaklingsborðum og ræður til þín fleira starfsfólk og/eða gerir spítalann betri til að bregðast við veikum sjúklingum.

"Sjúklingarnir" eru tengingar og í hverri umferð ertu að reyna að hækka gildið á teningnum upp í sex og svo að útskrifa sjúklinginn. Ef þú sinnir honum ekki i umferðinni "veikist" hann og ef hann fer niður fyrir einn deyr hann, og það er ekki gott fyrir orðspor spítalans.

Ég spilaði spilið fyrst á Essen 2019 og féll strax fyrir því. Á allar viðbæturnar og hef spilað með flestar þeirra. Bara við að skrifa þetta langar mig að taka einn leik.

# 94
Mynd
Great Wall, The

The Great Wall

2021: # 22

The Great Wall er ósamhverft vinnumanna/hermannaspil með smá vélaruppbyggingarþema og snúningi sem lýsir sér í að her Móngóla reynir að brjótast í gegnum vegginn í hverri umferð.

Leikmenn stjórna öldnum Kínverskum herdeildum að reyna að verjast gegn Mongólum og byggja Kínamúrinn. Þó svo að leikmenn séu að keppast um að fá sem flest heiðursstig verða þeir líka að vinna saman í að verja múrinn, annars ráðast Mongólarnir inn og taka yfir.

Ég keypti spilið í gegnum Kickstarter á sínum tíma, en tók ekki módelin. Ég sá eftir því skömmu eftir að spilið kom, en þar sem ég næ því ekkert ofsalega oft á borðið er ég alveg sáttur. Fyrir utan að listinn af módelum sem ég á eftir að mála er ansi langur. Ég hef samt notið hverrar spilunnar í botn, ákvarðanirnar eru fjári góðar og það er ýmislegt í gangverkinu sem fær heilann til að bráðna pínu.

# 93
Mynd
Betrayal Legacy

Betrayal Legacy

2021: # 59

Betrayal Legacy bræðir saman Betrayal at House on the Hill við Legacy hugmyndir Rob Daviau, sem hafði áður gefið út Risk: Legacy og Pandemic: Legacy. Já og Seafall, en man getur ekki verið góður alltaf!

Spilið spilast yfir mörghundruð ár og það er algengt að leikmenn deyji, en þá koma þeir bara aftur sem skyldmenni þeirra sem dóu í næsta spili. Sagan í spilinu er nokkuð góð þó svo að það séu örlitlar gloppur í því og spilið er á margan hátt ekki eins brotið og fyrirrennarinn. Ég er búinn að spila það tvisvar alveg í gegn og upplifunin var ansi ólík í bæði skiptin, sem gefur til kynna að sagan hafi verið vel úthugsuð. 

Og já, ég myndi spila það aftur, með rétta hópnum, alveg klárlega!

# 92
Mynd
Sentient

Sentient

2021: # 132

Spilið gengur út á að velja vélmenni til að forrita í verksmiðjunni þinni. Hvert vélmenni sem bætt er við breytir borðinu hjá þér og laðar til sín fjárfesta. Ef þú forritar vélmennin á skilvirkan hátt muntu þéna vel...

Já einmitt. Þetta er abstract spil :-) Þemað er eins laust á eins og hægt er! En það þýðir ekki að spilið sé ekki gott. Þú kastar teningum í upphafi umferðarinnar og raðar á borðið þitt. Síðan ferðu að kaupa þér vélmenni í verksmiðjuna en hvert vélmenni breytir teningunum. Og þú færð peninga eftir því hversu vel þú lætur vélmennin breyta teningunum.

Zee Garcia úr Dice Tower kenndi mér spilið á fyrstu Midgard hátíðinni og því á það skemmtilegan stað í safninu mínu. Ég spila það ekki alveg nógu oft, en það framkallar alltaf þá frábæru minningu.

# 91
Mynd
Great Heartland Hauling Co.

The Great Heartland Hauling Co.

2021: # 193

Í spilinu tekuru að þér að vera trukkabílstjóri í miðvesturhluta Bandaríkjanna og reyna að gera þitt besta við að ferja vörur á milli staða. Spilið er með "pickup-and-deliver" gangverkið, þú ferð á einn stað, sækir þar vörur og ferð með þær eitthvað annað og skilar þeim af þér fyrir pening. Fyrstur upp í $40 ($30 eða $20 eftir spilarafjölda) vinnur.

Great Heartland var með í för þegar við Hildur fórum til London 2022 enda lítill og meðfærilegur kassi. Og við spiluðum það nokkrum sinnum úti og höfum gripið reglulega í það síðan. Frábært lítið spil sem spilast fljótt en hefur samt ótrúlega mikinn fjölspilunareiginleika.