West Kingdoms serían er svo frábær ...

Skrifað af Hilmar Kári þann

Mán 06. feb 2023 til Sun 12. feb 2023

Mynd
Android: Netrunner

Android: Netrunner

2, 2 og 2
3

Tókum þrjá góða leiki á opna Netrunner kvöldinu í Spilavinum á þriðjudagskvöld. Netrunner er ósamhverft tveggja manna "bardagaspil", hvar annar leikmaðurinn leikur hlaupara sem er að reyna að hakka sig inn á netþjóna vonda fyrirtækisins á meðan hinn leikmaðurinn er að spila fyrir fyrirtækið og verjast innrásum hakkarana. Spilið er það ósamhverft að læra þarf algerlega aðgerðir og taktík hjá bæði fyrirtækjunum og hlaupurunum.

Ég er að spila með sömu stokkana sem ég hef verið að nota síðan á Íslandsmótinu. Wayland Consortium fyrirtækið og glæpamanninn Ken "Express" Tenma, eiginlega bara til að geta þjálfað heilann á mér að læra á stokkana. Þar sem Netrunner er jafnmikið stokkasmiður eins og að spila á stokkinn er nauðsynlegt að læra á spilin í stokkinum, reyna að finna hvaða spil eru kannski veikari eða sterkari en önnur og finna svo ný spil til að skipta út. Ég á töluvert mikið af gamla Netrunner safninu auk þess sem ég á öll nýju spilin. Eitt af þessum spilum sem er alltaf gaman að spila, sérstaklega á móti snjöllum spilurum og reyna að koma fyrir vírusum í hausnum á þeim.

Mynd
Viscount of the West Kingdom Gameplay

Viscounts of the West Kingdom

4
1

Á spilakvöldi Neuxs tókum við bara eitt spil, en það er alveg í góðu deildinni. Það er lítið launungarmál að ég er hrifinn af Shem Philips spilunum og West Kingdom serían er alveg frábær. Síðasta spilið í þeirri seríu var Viscount of the West Kingdom en það gerist þegar konungsveldið er byrjað að hnigna, í kringum 980 e.kr. Þemað er ekkert mjög ríkt í spilinu frekar en í öðrum, en þó er alltaf skemmtilegt gangverk og skemmtilegar teikningar sem halda mani við efnið.

Þú spilar spilum niður á borðið þitt, hreyfir höfðingjann þinn um eins marga reiti og spilið leyfir og framkvæmir eina af fjórum megin aðgerðunum í spilinu: Byggja, stunda viðskipti, setja verkamenn inn í kastalann eða skrifa afrita handrit. Sem sagt handarstjórnun og verkamannagangverk. En mjög skemmtileg og frumleg nálgun á því tvennu.

Spilið var alveg í járnum enda eru leikmenn venjulega bara að einbeita sér að tveimur af fjórum aðgerðum, oftast eru viðskiptin önnur af þeim. Ég einbeitti mér að afritun handrita og það skilaði mér fyrsta sæti, einu stigi á eftir næsta manni. 

Við spiluðum með Gates of Gold og Keeper of Keys viðbótunum. Þær eru ekki "nauðsynlegur" hluti af spilinu en bætir við fjölbreytileikann. Og það er ekki flókið að bæta þeim við, þú getur jafnvel sleppt að einbeita þér að einhverri þeirra og bara gert áfram það sem grunnspilið býður uppá. Ég myndi ekki endilega bæta þeim inn í fyrsta leik, en klárlega í næstu leiki á eftir. 

Mynd
Paladins of the West Kingdom Setup

Paladins of the West Kingdom

2
1

Eftir að hafa spilað Viscount í vikunni og Architects í vikunni á undan fannst mér ómögulegt að spila ekki Paladins líka. Við Hildur gripum í tveggja manna leik og ég prófaði að hafa City of Crowns viðbótina með. Hún leit út fyrir að vera töluvert flækjustig en í raun er hún bara að bæta við tveimur aðgerðum. Þar sem ég hafði spilað spilið oftar var ég svolítið að einbeita mér að nýju aðgerðunum en Hildur var meira í grunnspilinu. Og það passaði bara nokkuð vel, það var jafnvægi í spilinu frá byrjun til enda.

Ég veit ekki alveg hvort mér finnst betra, Viscounts eða Paladins, þau eru mjög jöfn. Líklegast er Paladins að skora aðeins meira, en það er óskaplega jafnt. Sem er bara frábært. Næst er að kenna Hildi hin tvö og spila svo Tomesaga á eftir :-)