Þegar það rignir ...

Skrifað af Hilmar Kári þann

Mán 09. jan 2023 til Sun 15. jan 2023

Það er búið að vera nokkuð góð vika hjá mér, spilalega séð og samtals tólf spilanir sem hafa dottið inn. Töluvert um sama spilið, eitt nýtt spil og tvö gömul og góð fengu smá ást líka. Mér finnst alltaf gaman að koma aftur að spilum sem eiga sér sérstakan stað í safninu, einfaldlega vegna þess að þau eru það góð!

Mynd
Dead Men Tell No Tales - Gameplay

Dead Men Tell No Tales

3
1

Á spilakvöldi í Nexus gripum við í Dead Men Tell no Tales, spil frá árinu 2015 eftir Kane Klenko. Spilið er flokkað sem miðlungsþungt spil (2.51).

Spilið er flísalagninga-samvinnuspil sem notar aðgerðapunkta sem aðal gangverk. Leikmenn byggja upp borðið um leið og þeir hreyfa sig, slökkva elda og leita að fjársjóðum ... á meðan óvinir og verðir reyna að koma í veg fyrir að þeir steli yfir höfuð nokkru.

Ég verð að viðurkenna að ég var ekki alveg með sjálfum mér í þessari spilun. Ég var þreyttur (dottaði aðeins í regluútskýringunum) og var kannski ekki alveg í mínu besta formi. Þegar við vorum komnir örlítið inn í leikinn var ljóst að við vorum að fá högg beint á framtennurnar og við vorum rétt að halda í spililð þegar allt sprakk í tætlur :-) 

Þannig að ég viðurkenni alveg að sú upplifun hefur alveg áhrif á upplifunina. Það er margt í þessu spili sem höfðar samt til mín: Ósamhverfar persónur til að spila, við fáum ný hæfileikaspil við hverja spilun og jafnvel þó svo að persónan þín deyji í leiknum færðu bara nýja inn í næstu umferð. Samt var það ekki að kveikja neinn neista hjá mér, en eins og ég segi, ég skrifa það meira á þreytuna en nokkuð annað. Ég ætla að reyna að ná því aftur á borðið fljótlega og sjá hvort það komi ekki öööörlítið betri upplifun þá.

Mynd
Exit: The Game - Advent Calendar: The Mystery of the Ice Cave
Þar sem spilið er ekkert nema "spoilers" vildi ég ekki birta myndir af spiluninni sjálfri ;-)

Exit: The Game - Advent Calendar: The Mystery of the Ice Cave

2
9

Við erum búin að vera að spila dagatalið okkar .... ekki alveg samkvæmt líðandi dagsetningu :-)  Við byrjuðum sterkt, 1. des, 3. des, 5. des ... en svo bara var of mikið að gera í jólamánuðinum og við náðum okkur ekki alveg á strik. Vorum samt búin með fimmtán daga á milli jóla og nýjárs.

En nú settumst við bara niður og kláruðum. Níu dagar á rúmum tveimur tímum. Og spilið er alveg stórkostlegt. Sagan er nokkuð heil í gegn, þrautirnar eru frá því að vera léttar og upp í að þurfa tvær vísbendingar, en það sem við tökum út úr spiluninni er alveg klárlega hvað okkur þótti hún skemmtileg! Og ef þú hefðir einhverjar vonir um að það væri hægt að setja spilið aftur í kassann og leyfa öðrum að prófa .... ehhhh, nei :-D  Á einum tímapunkti fengum við að meira að segja gest sem sá kassann uppi á hillu og það var nóg til að gefa vísbendingu um hvað væri í vændum! 

Við mælum klárlega með jóladagatali Exit og okkur hlakkar mikið til næstu jóla!

Mynd
Wonderland's War - Gameplay
Mynd frá hönnuði: Prófun á forprentuðu eintaki (pre-production).

Wonderland's War

4
1

Wonderlan's War er 2-5 manna spil þar sem leikmenn taka að sér að stýra einni af fimm fylkingum sem hefur verið boðið í te partý hjá Hattaranum. Spilinu er skipt upp í tvo aðskilda hluta. Í fyrri hlutanum ferðast leikmenn um hlaðborð spila og velja sér fjóra hæfileika til að nota síðar. Þú mátt fara eins langt og þú vilt en þú getur ekki bakkað. Ef þú ert ekki komin með fjögur spil í enda hringsins þarftu að taka þér geðveikisbrot (sem er aldrei gott), svo er fyllt á spilin og þú heldur áfram annan hring.

Í seinni hlutanum eru svo bardagar á allt að fimm svæðum á borðinu (fer eftir leikmannafjölda). Bardaginn er "ýttu á heppnina" gangverk. Þú ert með flögur í poka og dregur þær upp eina í einu. Ef þú vilt hætta "dregur" þú upp tóma hendi. Sá sem vinnur fær stig og getur sett niður kastala í svæðið (sem veitir stig í lokin). Einfalt en skemmtilegt. 

Ég skil vel af hverju þetta spil var á mörgum listum gagnrýnenda árið 2022, spilið er það gott. Ég hélt að mér væri ekkert að ganga neitt sérlega vel, var lengi vel síðastur, en átti frekar frábæra endurkomu í síðustu umferðinni og endaði annar. Að spil hafi slíka endurkomu (þó svo að hún sé mikið til byggð á minni heppni og annara óheppni) er eitthvað sem mér finnst skemmtilegt við spil.

Borðspil.is mælir með Wonderlands War og það endar í safni okkar um leið og það kemur aftur.

Mynd
Wingspan - Gameplay
Þetta spil er alltaf jafn fallegt!

Wingspan

4
1

Við fengum gesti í heimsókn á laugardagskvöldið, gesti sem hafa alveg spilað töluvert en samt ekki nema nokkrum sinnum á ári. Fyrra spilið fyrir valinu var Wingspan. Wingspan er spil sem ég hef spilað ellefu sinnum og fæ ekki leið á. 

Gangverkið er svo einfalt, þú hefur fjórar aðgerðir! Spila niður fugli, ná í mat úr fóðraranum, verpa eggjum eða velja ný spil. Spilunum er spilað niður í friðlöndin þín og því fleiri fugla sem þú hefur í hverju friðlandi, því betri verður aðgerðin. Og margir fuglanna hafa sér aðgerðir sem virkjast þegar þú ert að virkja eina af þessum fjórum aðgerðum, á milli umferða, einu sinni í hring eða í enda spilsins. Leiknar eru fjórar umferðir og á milli umferða er einnig skoruð stig sem er breytilegt á milli spilana. 

Wingspan er spil sem ætti að vera til á hverju heimili. Jafnvel fyrir þá sem finnst spilið ekki alveg jafn frábært og mér, þá er það í fyrsta lagi svo fallegt og í öðru lagi höfðar nokkuð vel til nýrra spilara, þar sem þeir geta tengt nokkuð auðveldlega við þemað. 23 stig skildu að fyrsta og síðasta spilara en aðeins tíu stig voru á milli fyrsta og þriðja!

Mynd
Great Western Trail - Gameplay
Þó svo að spilið hafi fengið andlitslyftingu með annari útgáfu er ekki mikill munur á milli útgáfa

Great Western Trail (2nd edition)

4
1

Í Great Western Trail ertu að reyna að reka kýr til Kansas! Einfalt ekki satt?

GWT er samansafn af gangverkum. Grunngangverkið er stokkasmiður, en það er samt smá breyting frá því sem fólk er vant, því þú ert að reyna að komast til Kansas með sem fjölbreyttasta safn af kúm. Ef þú kemur með tvö eða fleiri spil af sömu tegundinni mun hún aðeins telja einu sinni! 

Eníhú... leikmenn byrja á byrjunarreit og ferðast í gegnum byggingar (flísar), bæði sínar eigin og almennar, framkvæma aðgerðir á flísunum, selja kýr fyrir auðfenginn gróða, færa lestina sína, ráða aðstoðarfólk og kaupa fleiri kýr í stokkinn sinn. Það er hellingur í gangi í þessu spili (kaupa hús og leggja niður, færa lestina, kaupa viðburðaspil ofl) og ekki auðvelt að lýsa því í texta (né í orðum). Og kannski ekki besta spilið til að kenna tveimur nýjum kl 23 að kvöldi ...

Við skemmtum okkur konunglega! Annar af nýju spilurunum gjörsamlega skúraði gólfið með okkur, enda náði hún frábærum endaspretti með lestinni auk þess sem hún kom kúm í allar stigaborgirnar og fékk heila hrúgu af stigum! Spilunin tók rúma þrjá tíma en okkur leið samt ekki eins og okkur leiddist á meðan.

Við notuðum kálfaviðbótina, enda frekar auðveld að setja inn. Hún virkar þannig að þú kaupir kálf sem er af styrkleika 2 og reynir að koma honum til Kansas. Þegar það gerist, í staðinn fyrir að hann fari í lestina með hinum þá "stækkar" hann og þú færð kvígu sem er af styrkleika 4. Ef þér tekst að koma henni til Kansas færðu fullorðna kú sem er af styrkleika 5. Ákaflega skemmtileg viðbót sem ég nota núna alltaf í spilinu.