Það snöggfrysti í Garðabænum

Skrifað af Hilmar Kári þann Mán, 20/03/2023 - 09:30

Mán 13. mar 2023 til Sun 19. mar 2023

Mynd
Frosthaven - Gameplay 5
Mynd
Frosthaven - Gameplay 6
Það eru oft mikil átök þegar barist er við skrímslin í Frosthaven

Frosthaven

4
2

(Örlítill spillir í textanum!)
Ég náði að setja saman flokk fjögurra hetja og lögðum við af stað fótgangandi til Frosthaven. Þar sem einhverjar hetjurnar voru alveg nýjar ákváðum við að fara auðveldari leið en hittum fyrir stóra hjörð af ýlfrandi hundum sem voru einstaklega svangir. Það var eiginlega ekkert annað í stöðunni en að drepa þá eða verða étin af þeim. Sem betur fer tókst okkur það. Þegar við vorum svo komum að Frosthaven var allt í ljósum logum! Alcox-ar voru í árásarham og voru að brenna þorpið niður. Það var erfiður bardagi að takast á við og um tíma töldum við að við þyrftum frá að hörfa, en á einhvern undraverðan hátt tókst okkur að yfirbuga þá og drepa alla sjáanlega óvini og komumst við þá inn í Frosthaven. 

Já, Frosthaven fékk ekki að staldra lengi í skammarhillunni minni. Reyndar fór það aldrei þangað, því ég hafði spilað það á Essen 2022 og því tæknilega spilað þegar mér barst það í hendur. En hvort sem heldur er, það rataði á borðið aðeins viku eftir að það kom til mín.

Og það lofar góðu, það lofar mjög góðu. Spilanir eru reyndar langar. Ég sé fyrir mér að hver söguhluti muni taka allt að þrjár klst., amk. til að byrja með, enda erum við með einn mjög óvanan spilara í hópnum sem veit ekkert hræðilegra en að gera mistök og taka ekki LANGbestu ákvörðunina í hvert sinn :-) En mig grunar að þegar við höfum farið í gegnum nokkrar spilanir í viðbót læri hún betur á stokkinn sinn og geti því farið að taka hraðari ákvarðanir.

Útvarðarhlutinn er líka áhugaverður. Við þurfum að byggja upp þorpið. Það er ekkert hægt að versla, einfaldlega vegna þess að það er engin verslun! Við þurfum að smíða vopnin okkar sjálf og brugga seyði. Við byrjuðum á því að byggja upp viðarframleiðsluna fyrir seinni umferðir og ætlum að vera nokkuð fókusuð á að styrkja útvörðinn sem mest. Næsta spilun er á þriðjudag, er ekki kominn þriðjudagur?

11/10

Mynd
Ora et Labora - Gameplay 2
Mynd
Ora et Labora - Gameplay 1
Það er MIKIÐ af flísum i Ora et Labora

Ora et Labora

2
1

Ég er mikill aðdáandi Uwe Rosenberg og telst mér að ég eigi 24 spil eftir kallinn. Eitt af fyrri spilum hans Ora et Labora er búið að vera ófáanlegt lengi en Lookout henti víst í endurprentun fyrir ekki svo löngu, þó svo að sú endurprentun rataði ekki til Íslands. Ég rakst á eintak rétt fyrir lokun á UK Gaming Expo í fyrra og hentist alveg til að grípa það. Svo fór það auðvitað bara upp í hillu eins og svo mörg önnur .... þangað til um helgina. 

Ora et Labora er auðlindastjórnunarspil. Allar auðlindir eru á framleiðsluhjóli og í hverri umferð færist armur hjólsins um eitt bil. Þegar þú notar svo einhverja af auðlindunum, t.d. að fella tré, skera mó, rækta korn færðu jafnmargar auðlindir og hjólið segir til um og svo færist hún niður á núll. Frekar sniðug leið til að halda utan um auðlindirnar. Í spilinu eru yfir 200 flísar sem tákna ýmist grunnhráefni eða unnar vörur og það er alltaf nóg af auðlindum, þó svo að man þurfi að stjórna þeim vel til að enda ekki með óþarfa hráefni í lokin. 

Stigaskorun er líka áhugaverð. Þó færð stig fyrir byggingar en þú færð líka að byggja ný byggðarlög (settlements). Þegar þau fara niður færðu stig fyrir byggingar sem eru vinstra og hægramegin og fyrir ofan og neðan byggðarlagið. Og þú mátt byggja þau við hliðina á öðru byggðalagi þannig að það getur orðið áhugaverð keðjuverkun. 

Það er bara ein bygging til af hverri tegund, en þú getur borgað öðrum leikmanni einn pening fyrir að nota bygginguna hans (eins og í Le Havre). 

Mér fannst Ora skemmtileg þraut til að leysa. Þó grunar mig að spilið gæti orðið svolítið einhæft eftir því sem fleiri spilanir detta inn því það eru alltaf sömu byggingarnar sem þarf að byggja þannig að eina breytingin er við hvern þú ert að spila og hvað þeim dettur í hug að gera. Það er hugsanlega eini neikvæði þátturinn. En það eru margir jákvæðir þættir og ég er bara búinn að spila það einu sinni ;-)

8.5/10

Mynd
Grand Austria Hotel - Gameplay 3
Í lokin leit hótelið mitt svona út. Fá herbergi og næstum engir gestir :'(

Grand Austria Hotel

2
1

Hildur átti harma að hefna frá því í síðustu viku og við tókum því eitt fljótt Grand Austria á sunnudagskvöldinu. Við prófuðum að nota hótel inngangana úr Let's Waltz viðbótinni og þeir eru margir áhugaverðir. Minn virtist vera sniðugur en röð rangra ákvarðana auk þess sem það komu bara aldrei neinar almennilegar veitingar út varð til þess að ég fékk ekki nema 68 stig! Hildur vann mig með 73! Hvorugt okkar hefur séð svona lágt skor í GAH! 

En spilið er alltaf æði. Eins mikið og við vorum að ströggla og pæla þá hlógum við mikið að óheppni okkar sjálfra og erum með plön um að prófa kampavínsviðbótina næst! 

8.5/10