Önnur frábær vika

Skrifað af Hilmar Kári þann

Mán 20. mar 2023 til Sun 26. mar 2023

Enn ein frábær vika að baki. Tíu spilanir, í viku sem ég hélt ég gæti ekki spilað mikið í er auðvitað bara forréttindi. En þegar man á frábæran spilahóp og kærustu þar að auki sem finnst gaman að spila er það auðveldara en oft.

Mynd
Frosthaven Map
Mynd
Geminate Spilaraborð

Frosthaven

4
3

Við erum komin aðeins inn í spilið núna og erum búin að fara tvisvar til Frosthaven og gera Outpost hlutann, byggja aðeins upp og að meira að segja erum við búin að uppfæra persónurnar okkar einu sinni. Í einni spilunni kom reyndar í ljós að við gerðum ekki góð plön og eftir tuttugu mínútur ákváðum við bara að byrja upp á nýtt (og þess vegna eru þrjár spilanir, ekki tvær).

Ég ætla ekki mikið að segja frá spiluninni sjálfri þar sem spilið er nýtt og það er Legacy spil. Það sem ég mun segja í framtíðinni verður mjög stutt og ég fer ekki djúpt í neitt. 

Nema hvað ég mun næstu vikur aðeins tala um grunnpersónurnar í spilinu og hvernig þær spilast. Ég er að spila Geminate sem er frekar flókin klasi til að spila. Í staðinn fyrir eina persónu eru Geminate tvær, önnur berst með höndum og hin berst úr fjarlægð. Fjarlægðarbardaginn er oftast háður því að óvinirnir séu lengra frá þér en x margir reitir, þannig að það þarf oft að vera með plan A og plan B þegar verið er að velja spil. Stokknum er skipt í tvennt, sjö spil eru fyrir Ying og sjö fyrir Yang og þegar þú velur spil þarftu líka að skipuleggja hvenær best er að skipta um ham, því ef þú spilar bara í öðrum hamnum hefur þú ekki nema um sjö spil að velja úr og því þynnist hendin frekar hratt.

Það er hrikalega gaman að spila þessa persónu, hún togar mikið í hausinn á mér hvernig best er að koma spilunum niður en til þessa hefur mér gengið vel. Og spilið sem ég fékk í uppfærslunni er mjög spennandi. 

Við erum að ná að spila 1-2 í viku, en enn sem komið er eru spilanirnar að taka 3 klst +, sem er svolítið mikið. Ég krosslegg fingur um að við náum að geta spilað amk. tvær spilanir á kvöldi þegar við erum orðin vanari. 

10/10

Mynd
Ora et Labora - Gameplay 2

Ora et Labora

2
1

Miðvikudagsspilið var Ora et Labora. Ég tók það með mér niður í Nexus og boðaði Gunnar Óla til að koma og spila við mig. Fleiri höfðu ekki áhuga að þessu sinni þannig að við tókum tveggja manna spil.

Og spilið er jafn gott og í fyrstu spilun. Það spilaðist töluvert öðruvísi en fyrsta spilunin, sem er gott. En mig langar mjög að prófa amk. einu sini að spila það þriggja manna. Og mig langar líka að spila lengri útgáfuna af tveggja manna leik, en þar er spilað með öllum byggingunum sem eru í þriggja og fjögurra manna leik og getur leikurinn auðveldlega farið yfir þrjár klst! Ég myndi nú ekki spila það við hvern sem er, en klárlega myndi ég gera það með GÓla.

8.5/10

Mynd
Three Sisters gameplay

Three Sisters

2
3

Ég bakkaði systurspil (pun-intended) Three Sisters, Motor City fyrir nokkru og er nýbúinn að fá það í hendur. Með spilinu kom viðbót við Three Sisters og stuttu seinna var það til sölu á notuðu síðunni þannig að ég stökk á það.

Í vikunni er ég búinn að spila það þrisvar, einu sinni tveggja handa (sem ég mæli ENGAN VEGIN með) og tvisvar við Hillu. Þetta er einstaklega vel útfært kasta-og-skrifa spil þó svo að stundum hafi bókhaldið verið aaaaaðeins of mikið. Það er svo mikið af keðjuverkunum að ég er með sérstakt blað til að skrifa niður hversu mikið ég á eftir af hverri keðjuverkun, svo ég missi ekki þráðinn.

Mér finnst spilið fínt en Hilla er alveg kolfallin. Hún greip reglubókina og lærði solo reglurnar og er búin að spila það fjórum sinnum í viðbót solo! Mér þykir það nú ekki leiðinlegt að sjá :-) Þetta spil verður tekið með í utanlandsferðir á næstunni, enda einstaklega meðfærilegt.

7.5/10

Mynd
Hamburg Gameboard and Components

Hamburg

2
1

Ég bakkaði á sínum tíma Stefan Feld City Collection og er Hamburg fyrsta spilið úr þeirri seríu, endurgerð af hinum fræga spili Burge. 

Hamburg er fínt spil, við spiluðum eftir grunnreglunum án nokkura viðbóta og vorum ekki einu sinni með allt sem á að vera á leikborðinu sjálfu. Skv. reglunum er best að læra spilið þannig.

Ég tel að það sé frekar fyrir óvanari spilara en ekki og að vanir spilarar ættu ekki í neinum vandræðum með að bæta við amk. þeim tveimur viðbótum sem fylla spilaborðið.

Ég varð fyrir smá vonbrigðum með spilið samt. Mér fannst það frekar ... bragðlaust, það er mikið af undirbúningsaðgerðum og fyrirbyggjandi aðgerðum, spilin sem þú dregur eru öll frábær en mér fannst ég ekki geta byggt mikið af byggingum af því að ég var alltaf að nota spilin í annað. Ég vona að það skáni með endurtekinni spilun, en fyrsta spilun var amk. ekki alveg eins góð og ég hafði vonað. Við Hildur vorum sammála um það, en ætlum að gefa því annan séns fljótlega.

6.5/10

Mynd
Legendary: A James Bond Deck Building Game

Legendary: A James Bond Deck Building Game

2
1

Svili minn hefur gaman af því að spila þó svo að hann hafi ekki spilað mikið af hobbýspilum áður. Í einu spjallinu okkar kom í ljós sameiginlegur áhugi á James Bond og því ákváðum við að henda í eina spilun á meðan að systurnar, konur okkar, fóru á tónleika.

Fyrir valinu var fyrsta bíómyndin í kassanum og þriðja myndin sem kom út, Goldfinger. 

Það var ekki langt liðið á spilunina þegar ég mundi af hverju mér finnst þetta spil svona skemmtilegt. Stokkasmiðir almennt heilla mig mikið, en gangverkið í Legendary spilunum er algjör snilld. Í James Bond útgáfunni byggir þú óvinastokkinn upp með A, B og C spilum og verða óvinirnir erfiðari og erfiðari eftir því sem á líður. Út geta líka komið Master Strike spil sem gera eitthvað vont við spilarana (í Goldfinger þarftu að henda dýrustu spilumum af hendi, einu pr. Master Strike sem komið er) og Scheme Twist-ið lætur hvert spil í Q-Branch-inu verða dýrara. En í næstu mynd, með næsta vonda kalli, gæti það verið eitthvað allt annað.  

Óvinirnir eru líka mjög þematískir. Í Goldfinger er t.d. Oddjob, hin þögli, asíski skúrkur sem heggur höfuðið af óvinum sínum með hattinum sínum. Hann er í spilinu. Í Goldeneye er það 006 sem er höfuðóvinurinn og svo mætti lengi telja.

Spilið hefur ekki farið mjög hátt, enda númer 1700 í röðinni af Legendary spilum, en það virkar mjög vel á mig og mér finnst ávalt gaman að spila það, þó ég tapi næstum alltaf (eins og t.d. núna).

9/10

Mynd
LotR: JiMe Setup
Mynd
LotR: JiMe Aragorn og Gimli Fighting

The Lord of the Rings: Journeys in Middle-earth

1
1

Ég eignaðist aðra viðbótina við LotR: JiMe áður en ég eignaðist grunnspilið (svona er að fara á útsölur í Nexus!) en keypti mér mjög fljótlega grunnspilið sem svo hefur safnað ryki í hillunni í þó nokkurn tíma. Á sunnudaginn ákvað ég að láta verða af því að læra það og spila amk. eina umferð.

Þetta er frábær útgáfa af gangverkinu sem var fyrst kynnt í Mansions of Madness: 2nd edition! Það er greinilega búið að slípa það helling til og var það samt bara þó nokkuð gott. Það sem ég tek fyrst eftir er að hver persóna í spilinu er með mikið af sínum eigin spilum sem gerir spilun á þeim mjög þematíska. Ég er að spila með Aragorn og Gimli og hvor um sig hefur sinn eigin stokk. Stokkurinn er nýttur í umferðinni og í byrjun næstu umferðar er allur stokkurinn tekin upp, stokkaður og endurnýttur, ekki ósvipað og flísarnar í Orléans eru notaðar. Það hefur ekki oft verið gert og sérstklega ekki í spili sem er ekki einu sinni stokkasmiður! 

Sagan er frekar þematísk og spilið gengur frekar þétt. Þó svo að þú spilir með snjallforriti eru samt hellingur af ákvörðunum sem þú þarft að taka og forritið er miklu meira að halda bara utan um stöðu á skrímslum og hvaða skrímsli koma út og svona. Ég væri í raun alveg til í ef forritið fyrir Frosthaven væri jafn gott og þetta!

Spilið stendur enn á eldhúsborðinu hjá mér, ég ætla að taka kafla tvö annað kvöld .....

9/10