Meira nýtt en gamalt

Skrifað af Hilmar Kári þann Mán, 30/01/2023 - 09:10

Mán 23. jan 2023 til Sun 29. jan 2023

Ágætis spilavika, fimm á borðið, þar af þrjú ný (og tvö af hillu tækifæranna). Það verður að teljast bara nokkuð gott. Auk þess setti ég Trickerion á borðið og fiktaði í íhlutunum. Það verður áhugavert að læra það.

Mynd
Genotype

Genotype: A Mendelian Genetics Game

4
1

Á spilakvöldi Nexus á miðvikudaginn byrjuðum við á því að spila Genotype. Ég hafði aldrei spilað það áður en hafði heyrt góða hluti. Gagnrýnendur hjá Dice Tower höfðu m.a. talað spilið mjög upp.

Spilið er 1-5 manna verkamannaspil í grunninn. Leikmenn eru að rækta baunaplöntur og gera það m.a. með því að fikta í genamengjum á spilaborðinu. Eftir að leikmenn hafa staðsett verkamennina sína kemur ræktunartímabil og þá þarftu að sækja þær gen til að búa plönturnar til. Genin er "búin" til með því að teningum er kastað. En hvað hver hlið á teningnum er nákvæmlega að framleiða fer eftir því hvort fiktað var í genaframleiðslunni fyrir tiltekið genamengi og því getur verið að það er lítið til af þeim genum sem þig vantar. 

S.s. mikið af samskiptum (e.interaction) á milli leikmanna. Þú getur valið um að fá að velja fyrst úr ákveðnu mengi, fá svo að vera fyrstur í næstu umferð og svo að lokum eru teningar valdir í leikmannaröð og því er stundum fátt um fína drætti fyrir þig ef þú passaðir þig ekki á því að komast framfyrir röðina.

Ég er ekkert rosalega mikið fyrir svona mikil samskipti milli leikmanna, en það getur þó verið gaman, sérstaklega í leik sem er ekki lengri en þetta (c.a. 90 mín). Spilið stendur greinilega undir þeim áhuga sem margir hafa sýnt því.

Mynd
Tiny Epic Dinosaurs
Íhlutirnir í Tiny Epic spilunum eru aðeins minni en í "venjulegri" stærð

Tiny Epic Dinosaurs

4
1

Seinna spilið á spilakvöldinu var Tiny Epic Dinosaurs. Það var á hillu tækifæranna hjá mér þannig að mér þótti vænt um að fá að koma því á borðið.

Tiny Epic Dinosaurs er verkamannaspil úr Tiny Epic línunni eftir Scott Almes. Leikmenn eru að byggja upp dýragarð með risaeðlum, reisa veggi, gefa þeim að borða og passa að þær sleppi ekki úr garðinum. 

Gangverkið er til þess að gera einfalt. Verkamannareitirnir eru þessir týpísku: Fá mat, fá grindverk, ná í risaeðlur, rækta nýja tegund af risaeðlu og uppfylla samninga ... svosem ekkert nýtt undir sólinni, en mér finnst samt þemað í spilinu koma alveg ágætlega í gegn. Og spilið er einstaklega lítið og meðfærilegt þannig að það fær ábyggilega nokkrar spilanir hjá mér, þar sem það fær að fljóta með í ferðatöskuna á ferðalögum.

Mynd
Watergate
Lítið og nett, en samt svo fullt af ákvörðunum

Watergate

2
1

Gunni kom til mín á laugardaginn og fyrst drógum við fram Watergate, sem hafði verið á óskaspilalista Gunna í einhvern tíma.

Watergate er ósamhverft tveggja manna spil um Watergate hneykslið í Bandaríkjunum árin 1972 - 1974. Leikmenn spila annað hvort sem blaðamennirnir, sem eru að reyna að koma upp um Nixon eða Nixon sjálfur sem er að reyna að komast upp með allt saman.

Spilið er mjög ósamhvert, það eru engin spil í blaðamannastokkinum sem eru eins og í Nixon stokkinum. Þó er leikurinn frekar einfaldur. Í hverri um ferð, sem samanstendur af því að annar leikmaður gerir fimm sinnum og hinn fjórum sinnum, spila leikmenn niður einu spili. Það getur annað hvort verið notað til að færa áhrifamerkinguna, frumkvæðismerkinguna eða eina af þremur (eða fleiri) vísbendingum í átt til þín (eins konar reipitogskeppni) eða þú spilar því fyrir áhrifiin á spilinu. Venjulega eru spilin það sterk að þegar þú ert búinn að spila spilinu út þá þarftu að henda því út úr leiknum. 

Og spilin eru sterk. Stundum svo sterk að Gunna fannst þau "allt of sterk" og hann kvartaði mikið yfir því. Alveg þangað til að hann vann spilið ;-) En reyndar var staðan orðin þannig að ef hann hefði ekki unnið þá hefði ég unnið. 

Frábært tveggja manna spil með sterku söguþema. Mæli algjörlega með!

Mynd
Disney Villainous - Jaffar
Auðvitað er Jaffar einn af vonduköllunum sem þú getur spilað í Disney Villainous

Disney Villainous

2
1

Það er töluvert af spilum á hillu tækifæranna hjá mér og reglulega reyni ég að taka eitt niður og spila. Fyrst Gunni var í heimsókn var sniðugt að fá hann til að kenna mér.

Disney Villainous er 2-6 manna ósamhverft aðgerðavals-spil. Hver leikmaður spilar einhvern af fjölmörgu "vonduköllum" (e.villains) og það fer alveg eftir því hvern þú valdir hvernig spilið spilast, hver og einn er það ólíkur öðrum. Leikmenn færa aðgerðapeðið sitt á reit sem þeir völdu ekki í síðustu umferð og framkvæma allar aðgerðirnar á þeim reit. En ef það er hetja (góðu kallarnir) á reitnum eru færri aðgerðareitir til að velja úr.

Ég sé alveg að þetta spil verði stundum fyrir valinu. Það er ekki mikið af reglum í því en mikið um skemmtileg samskipti á milli leikmanna. Gefið, ég hef bara spilað það tveggja manna, en það verður fjör að spila það einnig í stærri hóp og ætla ég að reyna að koma þvi á borðið á Spilavininni um næstu helgi.

Mynd
Arkham Horror LCG: Machinations Through Time
Svona lítur atburðarásin út í upphafi spils. Pokinn frá Hrefnu í forgrunni.

Arkham Horror: The Card Game - Machinations Through Time

4
1

Ca einu sinni í mánuði hittist fólk úr Arkham Horror á Íslandi Facebook hópnum og spilar uppáhalds spilið okkar, Arkham Horror: The Card Game. Á sunnudaginn renndum við í Machinations Through Time sem er saga frá Arkham Nights. Bæði er hægt að spila hana sem 3x1-4 fjölspil eða bara sem einn hópur að fikta í þremur tímalínum.

Já, Machinations Through Time (eins og titillinn ber með sér) er um tímaferðalög. Við ferðumst frá fortíð í nútíð og til framtíðar og reynum að aðstoða vísindamenn við að finna upp tímaferðalög, því einhver er búinn að fikta í tímalínunni og allt er í steik!

Ég ætla svosem ekki að fara neitt nánar í söguna, hún er mjög dæmigerð fyrir Arkham Horror sögurnar, en upplifunin var, eins og ávalt á þessum dögum alveg frábær. Guðbrandur stendur sig vel í skipulagningunni og það er alltaf góð mæting. Ef þú hefur áhuga, skráðu þig í hópinn okkar á Facebook.

Það skemmdi svo ekki spilaupplifunina að við vorum að spila með spánýjum stálflögum sem ég hafði fengið frá Bretlandi og svo heklaði Hrefna María dóttir mín handa mér alveg geggjaðan flísa/teningapoka sem við notuðum til að draga uppúr.