Frábærir páskar í faðmi fjölskyldunnar

Skrifað af admin þann

Mán 03. apr 2023 til Sun 09. apr 2023

Það er fátt betra en að fara upp í sumarbústað með fjölskyldunni, borða páskaegg og kalkún og spila nokkur borðspil með. Nema þá að kíkja á undan í heimsókn til Stefáns og spila við hann. Toppvika alveg!

Mynd
Quacks of Quedlinburg, The

The Quacks of Quedlinburg

4
1

Við gáfum ungri frænku Quacks í afmælisgjöf í fyrra og hún hefur beðið óþreyjufull eftir að við komum og kennum henni spilið. Það varð úr um páskana og hún var mjög lukkuleg. Spilið er mjög skemmtilegt fjölskylduspil, það er ofarlega á gjafalistanum ef ég er að hugsa um að gefa spil í gjafir og það hitti klárlega í mark. 

Ég á allar viðbæturnar sjálfur og mig klæjar í puttana að fá að spila spilið aðeins fjölbreyttara en bara grunnuppsetninguna.

8/10

Mynd
Pandemic Legacy: Season 1

Pandemic Legacy: Season 1

4
1

Við höfum ekki spilað PL:S1 síðan rétt fyrir áramót þannig að við þurftum smá regluupphreinsun áður en við byrjuðum. Svo ræddum við töluvert um hvaða kænsku við skyldum nota og velja okkur rétta leikmenn fyrir verkefnið. Sem tókst ansi vel, við náðum að vinna maímánuð nokkuð sannfærandi og í framhaldi byggðum okkur upp fyrir júní. Vonandi líða ekki þrír mánuðir þangað til við setjumst niður og spilum aftur

10/10

Mynd
Everdell Gameplay 1
Mynd
Everdell Gameplay 2

Everdell

4
1

Ég hafði spilað Everdell einu sinni áður og mundi að mér fannst það skemmtilegt. Svo skemmtilegt að ég bakkaði stóra kassann með öllu :facepalm: Nema hvað!

Everdell er "tablau" spil, þú ert að spila niður spilum í þorpið þitt og getur mest haft fimmtán spil í þorpinu (nema að annað sé tekið fram). Ef þú byggir byggingar getur þú fengið charactera ókeypis. Spilið er líka auðlindastjórnunarspil, þú ert endalaust að sækja þér auðlindir og nota þær í uppbygginguna. 

Það sem mér finnst skemmtilegt við spilið er ósamhverfan í hvenær fólk færir sig á milli árstíða. Þú hefur ákveðið marga verkamenn í spilinu (sem fjölgar í hverri árstíð) og notar þá til að m.a. sækja þér hráefni. En svo getur þú líka spilað niður spilum og það kostar ekki verkamenn. Því er möguleiki á að reiturinn sem þig vantar að komast á sé upptekinn og þú spilar þá bara niður spili í staðinn. Sá leikmaður sem "er fyrir þér" undirbýr sig fyrir næstu árstíð og tekur þ.a.l. verkamanninn í burtu og þá er reiturinn laus! Mjög snjallt gangverk. Nú er bara að spila það nokkrum sinnum og bæta svo við viðbótunum einni og einni.

8/10

Mynd
Rush MD Gameplay 1
Mynd
Rush MD Gameplay 2

Rush M.D.

4
1

Ég prófaði þetta spil fyrst í Essen 2019 og bakkaði það í framhaldinu. Renndum í tvær spilanir á því um páskana enda frekar fljótspilað.

Spilið er rauntímaspil, það eru fjórar umferðir og hver umferð tekur fjórar mínútur. Verkamennirnir þínir (læknarnir) eru stundaglös og þú mátt gera aðgerðina í herberginu sem þú ert í á meðan stundaglasið er að tæmast. Ef þú ert fljót þarftu að bíða, ef þú ert lengi þarftu að snúa glasinu við aftur og halda áfram að mæla.

Það er mikill handagangur í öskjunni þegar það er verið að spila, hróp og köll. Og mistök verða. Við t.d. settum tvö nýru í sjúkling sem þurfti ný lungu og töpuðum á því :-)  Frábær skemmtun fyrir þau sem finnst gaman af rauntímaspilum.

7.5 / 10

Mynd
Heat: Pedal to the Metal Components 1
Mynd
Heat: Pedal to the Metal Components 2

Heat: Pedal to the Metal

4p og 2p
5

Já, við náðum fimm spilunum um helgina. Allir spilarar nýjir nema ég og því fyrsta spil kennsluspil. Morguninn eftir settumst við frændi niður og prófuðum bara tveir og bættum þá við bílskúrsviðbótinni, sem er frekar einföld viðbót. Og svo þegar hinir vöknuðu tókum við tvær af þremur keppnum í Meistarakeppninni (og þ.a.l. allar viðbæturnar). 

Viðbæturnar gefa klárlega skemmtilegar breytingar á spilinu. Bílskúrinn er ósamhverf spil í hvern og einn stokk, auglýsingaspilin eru bara notuð einu sinni, fara beint í hendina og síðan fleygt, ljósmyndararnir hvetja mann til að gera heimskulega hluti í beygjum o.sv.fr. 

Spilið er alveg geggjað og ég mæli með því fyrir bæði vana og óvana spilara. 

9 / 10

Mynd
Three Sisters gameplay

Three Sisters

2
1

Prófuðum núna að hafa Rock Garden viðbótina með og hún er alveg skemmtileg viðbót þó svo að bókhaldið sé jafnvel enn meira núna en áður. Hildur vann mig núna enda er hún búin að vera að mastera spilið í einmenningsspilun. Held hún sé búin að spila spilið fimmtán sinnum ;-)

7.5/10

Mynd
Viticulture Gameplay 1
Mynd
Viticulture Gameplay 2

Viticulture + Tuscany

3
1

Það þarf alltaf að vera vín. Og þegar það er of snemmt til að drekka það, þá spilum við Viticulture. Þetta er alveg stjarnfræðilega vel hannað spil. Ég nota alltaf Tuscany borðið og við notuðum Mamas + Papas og sérstöku verkamennina. Misskildi "smá" hvernig annar virkaði, en það er bara þannig :-)  Tapaði með einu stigi (Hilla king-make-aði mágkonu sína) en þannig eru spil :-) 

9 / 10