Og sigurvegarinn er ...

Header paragraph
frétt
Mánudagur 17. júlí 2023
Mynd
Spiel Des Jahres 2023

Spiel des Jahres (spil ársins), hin mikilsverðu þýsku verðlaun voru tilkynnt á dögunum. Verðlaun eru veitt í fimm flokkum í ár, Spiel des Jahres, Kennerspiel des Jahres, Kinderspiel des Jahres og aukaflokkarnir tveir: Kennerspiel Sonderpreis og Kinderspiel Sonderpries.

Á hverju ári eru nokkur spil sem koma til greina og fer sérstök dómnefnd yfir öll spilin til að ákveða hvaða spil er best hvert ár. Til að spil geti komið til greina á hverju ári þarf spilið að hafa verið gefið út í þýskalandi það ár og því getur það komið fyrir að spil sem komið hefur út annars staðar í heiminum árið áður er tilnefnt til verðlauna nú. Verðlaunin eru tilkynnt í júlí hvert ár en tímabilið er frá maí til maí.

Þetta er í fertugasta og fjórða skiptið sem verðlaunin eru afhent. 

Mynd
Dorf Romantik

Spil ársins (Spiel des Jahres)

Flokkurinn Spiel des Jahres, sem einu sinni var eini flokkurinn, er nú veittur fyrir fjölskylduspil ársins. Sigurvegarinn í ár er Dorfromantik eftir Michael Palm og Lucas Zach.

Í úrskurði dómnefndar kom fram að Dorfromantik tekur þrýstinginn af hinu daglega lífi. Spilið er samvinnuspil, lætur fólki líða vel og veitir ný og spennandi tækirfæri í hvert sinn sem það er spilað án þess að það sé einhver hætta á að þú tapir.

Þau spil sem voru tilnefnd voru Fun Facts eftir Kaspar Lapp og Next Station London eftir Matthew Dunstan.

Á meðmælalistaunum voru svo eftirfarandi spil:

 • Akropolis eftir Jules Messaud
 • Hister
 • Kuzooka eftir Leo Colovini
 • Mantis eftir Ken Gruhl og Jeremy Posner
 • QE eftir Gavin Birnbaum
 • Sea Salt & Paper eftir Bruno Cathala og Theo Riviére
 • That's Not a Hat eftir Kapser Lapp
Mynd
Mysterium Kids: Captain Echo's Treasure

Barnaspil ársins (Kinderspiel des Jahres)

Sérstök barnaspilaverðlaun voru fyrst veitt árið 2001 og er þetta því í 23ja sinn sem þau eru veitt. Þýska fyrirtækið Haba hefur lang oftast unnið verðlaunin enda er fyrirtækið sérhæft í framleiðslu og þróun barnaspila.

Sigurvegarinn í ár er Mysterium Kids eftir Antonin Boccara og Yves Hirshfeld.

Í úrskurði dómnefndar kom fram að börn taka strax eftir tambúrínunni og, samofið við að búa til réttu hljóðin og vandlega hlustun verður til einstakt andrúmsloft. Ef leikmenn geta unnið saman og fundið út hvaða hlut þau eru að leita að eru þau verðlaunuð með gleði og ánægju.

Þau spil sem voru tilnefnd eru Cara Caramel eftir Söru Zarian og Gigamons eftir Johann Roussel og Karim Aouidad.

Á meðmælalistanum voru spilin:

 • Douzanimo eftir Sébastien Decad
 • Mein erstes Abenteuer (My first adventure) Books 1 to 7 eftir Moméo Hennion , Mathilde Malburet, Jean Philippe Sahut og Arnaud Boutle
 • Rutsch & Flutsch (Turtle Splash!) eftir Joel Escalante og Rafael Escalante
Mynd
Challengers

Kunnáttuspil (Kennerspiel des Jahres)

Í flokkinn kunnáttuspil fara spil sem flokkast þyngri en fjölskylduspil, þó svo að sú lína sé farin að vera ansi óljós, því undanfarin ár hafa spilin í flokknum orðið léttari og léttari.

Í ár var sigurvegarinn spilið Challengers eftir Johannes Krenner og Markus Slawistcheck.

Í úrskurði dómnefndar kom fram að Challengers býður upp á nýtt og ferskt consept sem snýr spilakvöldi í spennandi viðburð alveg þangað til síðasti bardaginn hefst á milli bestu tveggja spilarana.

Að auki voru tilnefnd spilin Iki eftir Koota Yamada og Planet Unknown eftir Ryan Lambert og Adam Rehberg.

Á meðmælalistanum voru spilin

 • Council of Shadows eftir Martin Kallenborn og Jochen Scherer
 • Mindbug eftir Marvin Hegen, Christian Kudahl, Skaff Elias og Richard Garfield
Mynd
Unlock! Kids

Sérstök verðlaun (Sonderpreis)

Í ár voru veitt sérstök verðlaun (Sonderpreis) fyrir bæði Kennerspiel og Kinderspiel. Hlutu spilin Unlock! Ticket to Ride - Mysterium - Pandemic og Unlock! Kids: Detective Stories þau verðlaun í ár. Eru þau vel komin að þeim enda frábærar útgáfur af annars mjög góðum spilum.

Við hjá borðspil.is óskum sigurvegurunum hjartanlega til hamingju með verðlaunin, öll spil eru vel að þeim komin, þó svo að ritstjórnin sé ekki á nokkurn hátt sammála Kennerspiel verðlaununum.

Það virðist oft sem ráin sé ekkert ofsalega há þegar kemur að því að tilnefna eða verðlauna spil í Kennerspiel flokknum. The Crew, sem vann árið 2020, er frábært spil og það er klárlega ekki alveg í fjölskylduflokki en það er heldur ekki mjög þungt spil. Í raun eru engin af þeim spilum sem hafa unnið Kennerspiel flokkinn flokkuð sem "þungt" heldur meira sem "næsta skref". Samt hafa spil verið annað hvort tilnefnd eða sett á "mælt með" listann sem eru klárlega í þyngri kantinum. Sem dæmi má nefna Ark Nova, Barrage, Aeon's End, Gloomhaven: Jaws of the Lion, Paladins of the West Kingdom, Underwater Cities, Newton, Lowlands, Great Western Trail og Pandemic Legacy: Season 1. Árið 2018, þegar Quacks of Quedlinburg vann voru tilnefnd That's Pretty Clever (Roll'n'write) og Haven & Ale!

Hvað um það, þessi verðlaun eru ein virtustu í sínum flokki þó svo að niðurstöðurnar séu ekki alveg í samræmi við áhuga ritstjórnar.