Jæja, á að skella sér til Essen?

Skrifað af admin þann
Mynd
Essen Spiel Logo

Essen spilaráðstefnan er haldin í enda september/byrjun október ár hvert. Í ár er hún 5.-9. október. En hvernig undirbýr fólk sig fyrir Essen? Hvað skal gera, hvað skal varast o.sv.fr. Hér eru nokkur góð ráð.

Mynd
Speil Hall Layout
Svona er salaskipanin fyrir Spiel '23

Staðsetning

Essen Spiel ráðstefnan er haldin í Essen Messe ár hvert. Messe er í suður-Essen, og er RISASTÓR! Minnstu salirnir eru að flatarmáli á borð við gömlu Laugardalshöllina og þeir stærstu eru stærri en nýja höllin. Og það eru 8 salir í Messe! Spiel notar sex þeirra undir sýningarsvæði í ár, en meira um það seinna.

Mynd
DB ICE Lest
Mynd
Frankfurt Airport

Flug og lestir

Hægt er að fljúga til margra áfangastaða en þrír hafa verið vinsælastir: Frankfurt, Amsterdam og Dusseldorf. Icelandair flýgur til Franfurt og Amsterdam og Play til Amsterdam og Dusseldorf. "Vandamálið" við að fljúga með Play er að þeir fljúga bara á þriðjudögum, fimmtudögum og sunnudögum sem þýðir annað hvort fleiri daga í Essen/Dusseldorf (ráðstefnan er frá fimmtudegi til sunnudag) eða að ekki er hægt að ná öllum dögunum. Til að ná öllum dögunum að fullu þyrfti því að koma amk. degi fyrr og ekki fara heim fyrr en degi seinna. Play býður líka bara upp á 20kg töskur á meðan að Icelandair býður upp á 23kg töskur, það munar um minna.

Þess vegna eru Frankfurt/Amsterdam flugin oftast fyrir valinu. Flogið út á miðvikudeginum kl 7:35/7:45 og lent í kringum kl 13 að staðartíma (Evrópa er +2 í byrjun október).

Hvort sem flogið er til Frankfurt eða Amsterdam er svo best að taka lest til Essen eða Dusseldorf. Hvort sem heldur er þarf bara að finna lestarstöðina á flugvellinum og á endanum kemstu til Essen. Ein leið til að finna lestir er að nota Google Maps, velja flugvöllinn sem brottfararstað og Essen sem komustað, þá færðu einhverja hugmynd um hvernig þú kemst.

Það er klárlega beinna að komast frá Frankfurt (og styttra), enda ertu bara að ferðast innanlands. DB (Deutche Bahn) eru með gott app þar sem þú getur keypt lestarmiðana. Mjög gott er að kaupa lestarmiðann með svolitlum fyrirvara, jafnvel mánuði fyrirfram, en þar með fæst mestur afsláttur. Einnig getur verið gott að kaupa opinn miða á leiðinni frá flugvelli til Essen, þar sem seinkanir geta valdið því að miðinn sem þú keyptir er útrunninn :-( Að lokum er einstaklega skynsamlegt að kaupa sér sæti á leiðinni, því lestarnar geta verið ansi fullar til og frá Essen þessa helgi.

Lestarstöðin á Frankfurtflugvelli er fyrir framan Terminal 1. Icelandair kemur uppað Terminal 2 þannig að það er tramferð + smá spölur sem þarf að ganga frá því að þú færð töskurnar. Gerðu ráð fyrir amk. 30 mínútum í að komast á lestarstöðina í fyrsta sinn, ef þú ert ekki að ferðast með einstaklingi sem er kunnugur staðháttum. Lestarnar fara gjarnan af spori 7.

Reyndu að finna lest sem fer beint. ICE lestarnar stoppa sjaldnar á leiðinni en RE lestar eru sístoppandi. Getur munað allt að tveimur tímum eftir því hvaða lest þú tekur, þannig að skoðaðu tímatöfluna vel!

Mynd
Töskur
"Fengurinn" frá Essen 2022

Pro-tip fyrir kaupþyrsta

Auðvitað er fólk mismunandi og kauphegðun þeirra líka. Þar sem kauphegðun Hilmars frá Borðspil.is telst vera í .... já, í hærri kantinum, þá langar honum að gefa ykkur smá "ráðleggingar frá fagmanni": Þú mátt taka eina 23kg tösku með þér. Það að bæta við annari tösku kostar 6.600kr og ef þú bætir við yfirþyngd á báðar töskurnar þá kostar það 5.600kr pr. tösku. Samtals 17.800kr. Og Saga Class miði er oft ekki nema 20-30.000kr dýrari en almennt farrými ... Hilmar kaupir sér nær alltaf Saga Class miða heim, fær tvær 32kg töskur, aðgang að Business lounge á flugvellinum, betra sæti, frítt Internet í flugvélinni og góðan mat heim. Vel þess virði ;-)

Mynd
Motel One
Mynd
Premier Inn
Motel One og Premier Inn eru vinsæl í kringum Spiel ráðstefnuna

Hótel í Essen eru dýr, sér í lagi á þessum tíma, í kringum ráðstefnuna. Mögulega eru þau alltaf dýr þegar það eru árlegar ráðstefnur í Essen Messe, enda tekur höllinn yfir 100.000 manns þegar allir salir eru nýttir og því eðlilegt að hótelin bókist upp. Mikið af Íslendingum, t.d. mikið af Spilavinum hafa haldið til á Motel One, sem er rétt hjá Ráðhúsinu í Essen. Borðspil.is mun söðla um í ár og vera með mörgum efnisframleiðendum á Premier Inn, sem er við hliðina á lestarstöðinni í Essen (Hauptbahnhopf). Það er aðallega vegna þess að við nennum ekki að dröslast með farangurinn okkar langa leið upp á lestarstöð þegar við höldum heim, og þess vegna er bara best að vera við hliðina á lestarstöðinni.

Kostnaður við hverja gistinótt er að meðaltali €150 á Premier Inn árið 2023. Önnur hótel gætu verið dýrari eða ódýrari en það fer auðvitað eftir staðsetningunni. Fyrsta árið sem Borðspil.is fór á Essen vorum við með hótel töluvert frá miðbænum. Það var ódýrara en þá þurfti að verja lengri tíma með almenningssamgöngum til að komast niður í Messe.

Mynd
Tabletop Together
Mynd
BGG Spiel Preview

Að skipuleggja sig fyrirfram

Rétt um það bil 1.200 titlar hafa verið tilkynntir sem nýjir á Spiel '23. Það eitt og sér er alveg nóg til að fá vægt kvíðakast yfir, en sem betur fer eru tól til að hjálpa þér til að komast að hvað er nýtt og spennandi.

Á boardgamegeek.com, undir Browse er möguleiki sem heitir "Previews". Ef þú smellir a hann koma upp öll þau Preview sem hafa verið sett inn á síðuna og Spiel '23 er venjulega efst þegar að GenCon ráðstefnunni lýkur. Amk. mjög ofarlega, eftir að listinn hefur verið stofnaður. Þar er bæði hægt að sía út spil sem vekja engan áhuga (t.d. á öðrum tungumálum en ensku), spil sem verða bara til sýnis (demo) eða sölu og þess háttar. Með því að velja einungis ensk spil til sölu fækkaði titlunum niður í "aðeins" 640 :-)

Síðan er hægt að raða spilunum nánar. Eftir framleiðendum, stafrófsröð, "hotness" o.sv.fr. Einnig, ef þú ert innskráð, getur þú valið hvort spilið sé "Verð að fá", "Áhugavert", "Óákveðin" eða "Hef ekki áhuga". Þegar þú svo ert búin getur þú skoðað það sem þú hefur valið og betur vinsað út hvað þig langar að sjá.

Annað tól til að gera þetta er Table Top Together tólið (https://tabletoptogether.com/tool) en það virkar ekki ósvipað og Preview tólið. En stóri kosturinn er að svo getur þú prentað út listann sem þú bjóst til, raðaðan eins og þú vilt hafa hann, t.d. eftir sölum. Þannig ertu með öll spilin sem þú vilt skoða í sal 1, sal 2 o.sv.fr. Frábær lausn.

Að lokum er líka hægt að sækja Essen appið, en það hefur skánað til muna á milli ára.

Mynd
Notuð spil á Spiel

Notaði markaðurinn

Annar týndur gimsteinn á Spiel er markaður með notuð spil. Hann fer fram fyrir Spiel ráðstefnuna sjálfa og er á Board Game Geek. Til að finna hann er best að leita að Essen 2023 Non-shipping Auction list á Google, sú leit skilar þér inn á svokallaðan "geeklist" þar sem spilin eru listuð. Salan fer þannig fram að þú býður í spil, með því að skrifa í athugasemdardálkinn. Oft er einhver byrjunarupphæð (starting bid) og svo er mögulega verð sem kallast BIN (buy it now), en með því tryggir þú þér spilið sem þú varst að bjóða í.

Listinn er óralangur, og nálgast 13.000 spil, nú árið 2023. Þó skal vekja athygli á því að mörg spilanna eru á öðru tungumáli en ensku, þannig að það er betra að fara varlega svo þú endir ekki með spil á þýsku í höndunum.

Listinn er ekki sá þægilegasti í heimi og getur verið mjög yfirþyrmandi, sér í lagi ef þú byrjar að skoða hann nokkrum dögum fyrir Spiel, því listinn er rúmar 500 síður, með 25 færslum á síðu. Því getur verið gott að nota tól eins og Spiel Auction Tool (https://spiel-auction.web.app/) sem leyfir þér að leita, raða í stafrófsröð ofl.

Þegar ráðstefnan gengur í garð hittist svo fólk í sal 7, venjulega kl 15 og skiptir á spilum og peningum. Þetta er mjög áhugaverð sjón og þó svo að þú kaupir engin spil þarna getur verið áhugavert að koma við í salnum og fylgjast með fólkinu.

Hægt er að gera mjög góð kaup á notaða markaðnum og finna spil sem þú ert búin að vera á höttunum eftir lengi.

Mynd
Essen Spiel Yfirlitsmynd
Borðin til að prófa spil fyllast fljótt

Dagur 1 - Fimmtudagur

Salirnir opna kl 10, en oft er búið að hleypa inn í raðir frá 9:30. Um leið og hurðir opnast hlaupa margir inn til að komast í básinn með mest spennandi spilinu sem það langar í til að næla sér örugglega í eintak. Mörg vinsæl spil seljast hratt upp og í einhverjum tilfellum er aðeins boðið upp á takmarkað upplag hvern dag, 20, 50 eða 100stk. er mjög algengt. Því myndast oft langar raðir strax kl 10.

Þegar rykið sest, svona kl 10:30 er allt komið í ljúfa löð og fólk gengur um á milli bása og skoðar. Það er mikið af fólki á fimmtudeginum, þó svo að fjöldinn aukist eftir því sem líður á ráðstefnuna.

Ef þú ert að fara í fyrsta sinn, andaðu bara rólega, þú ert ekkert að missa af neinu stórkostlegu, gefið að þú hafir hlaupið inn og náð í þetta eina spil sem þú varðst að næla þér í :-)  Gefðu þér tíma til að ráfa um salina, skoðaðu þig um, og ef þú sérð eitthvað spennandi, sestu niður og prófaðu eða nældu þér í eintak. 

Mynd
Terramara

En mig langar að spila ...

Eitt er það sem margir uppgötva í sinni fyrstu ferð á Spiel er að það eru hvergi opin svæði til að spila spilin sem þú keyptir. Amk. ekki í ráðstefnuhöllinni sjálfri. Það er hægt að prófa mörg spil, og reyndar er það oft þannig að þú getur setið og spilað heila spilun af einstökum spilum, jafnvel þó það taki 2-3 klst. Venjulega er þó einhver styttri útgáfa sem þú prófar.

En á kvöldin, hvert skal þá halda? Jú, anddyri hótelanna breytast í spilasali yfir þessa fjóra daga! T.d. á Motel One, þar sem margir Spilavinir halda sig er krökkt af borðspilurum, í hverju einasta horni, á hverju einasta borði. Hundruðir koma saman og spila nýjustu spilin sem þau keyptu yfir daginn.

Sama er á Premier Inn, þó svo að það anddyri sé ekki eins stórt og því ekki jafn margir að spila. En þar er stundum möguleiki að rekast á fræga spilahönnuði eða einhvern sem þú hefur séð á Youtube ;-)

Mynd
Essen Spiel Yfirlitsmynd - Salur 3
Yfirlitsmynd yfir sal 3

Dagur 3 - Laugardagur

Laugardagurinn er sá dagur þar sem flestir koma á hátíðina. Margir Þjóðverjar kaupa sér bara eins dags passa og þeir koma nær allir á laugardeginum. Því getur orðið æði þröngt á þingi, gangarnir allir troðfullir af fólki og varla séns að setjast niður og fá að prófa spil.

Því hafa margir af Íslendingunum brugðið á það ráð að hafa laugardaginn sem "hvíldardag". S.s. mæta ekki upp á Messu heldur sitja bara í lobbyinu og spila. Ef margmenni truflar þig eða þreyta farin að setjast í þig gæti það verðið sniðug hugmynd að spila bara á laugardeginum.

Mynd
Essen Spiel Yfirlitsmynd - Salur 6
Yfirlitsmynd yfir sal 6

Dagur 4 - Sunnudagur

Sunnudagurinn er oft þéttur til að byrja með en það grisjast svolítið eftir því sem líður á daginn. Oft er möguleiki að fá að prófa spil eftir hádegi á sunnudeginum, þó svo að það hafi verið stappfullt hina dagana. Seinni partinn er líka oft gefinn aflsáttur af spilum sem ekki seldust og því er oft hægt að gera fjári góð kaup á sunnudeginum. Mundu bara að þú þarft að koma öllum spilunum heim og það er lítið pláss í töskum annara ;-)

Mynd
Spruce punch

Undirbúningur fyrir flutninginn heim

Ef planið er að kaupa mörg spil gæti verið skynsamlegt að taka með sér slatta af pokum til að setja íhlutina í til Essen. Því það er MJÖG skynsamlegt að pönsa spilin fyrir flutning. Það getur sparað ófá kílóin að sitja á kvöldin og losa íhlutina út pappaspjöldunum. Ef þú tekur poka með er hægt að ganga frá þeim strax ;-) Einnig, ef þú keyptir spil og viðbætur í einu gæti jafnvel verið skynsamlegt að sameina viðbæturnar í grunnspilskassana (ef þér finnst það í lagi þ.e.a.s.). Eða, ef þú keyptir nokkur minni spil, er mögulega pláss fyrir þau í stærri kössum sem oft geyma ansi mikið loft.

Mynd
Galeria Essen Spiel

Matur

Það er seldur matur á Spiel en hann er ekki sá hollasti í heimi, hamborgarar, franskar, currywurst og þess háttar er hægt að kaupa, en lítið annað. Og það er næstum hvergi hægt að setjast niður og borða! Þú þarft að gera ráð fyrir því að borða standandi eða setjast upp við vegg eða hreinlega á mitt bílastæðið. 

Mynd
Opin svæði
Gráu svæðin sem eru inni í rauðu kössunum eru útisvæðin

Opin rými

Það er lítið um opin rými á Spiel, nema á milli salanna. Þegar þú labbar á milli muntu taka eftir að hægt er að opna hliðarhurðar og þar er hægt að lauma sér út og fá sér ferskt loft. Þangað fer reyndar líka reykingafólk þannig að ef það truflar þig þarftu kannski að leita vel, en það getur verið gott að komast úr skarkalanum og fá smá frið undir berum himni.

Það er hrikalega gaman að fara á Spiel. Undirritaður hefur farið á hverju ári síðan 2018 ef undanskilið er árið 2020 en þá var hátíðin blásin af og bara haldin í netheimum. Hvort sem þú ferð til að skoða, versla og/eða hafa gaman get ég lofað þér að upplifunin verður eitthvað sem þú hefur sjaldan eða aldrei upplifað áður. Og það er pottþétt að þig langar að fara aftur á næsta ári ;-)