Frosthaven, fyrstu kynni

Skrifað af Ívan Bjarni Jónsson þann
Mynd
Frosthaven - Cover
Kassinn utan af Frosthaven

Nú eru tveir mánuðir síðan Frosthaven kom út og þó ég hafi aðeins komið því á borð tvisvar(þriðja skipti seinna í kvöld) þá þykir mér það lofa góðu. Frosthaven, eða fimbulfriðlendið eins og við vinirnir erum gjarnir að kalla það, er legacy spil frá Cephalofair Games og er óbeint framhald af Gloomhaven.

Spilið inniheldur 6 mismunandi persónur sem leikmenn geta valið sér og fara í hlutverk málaliða sem leggja af stað til bæjarins Frosthaven í leit af skyldingi. Þar lenda þeir í ævintýrum og mismunandi persónur koma og fara úr hópnum eftir því sem líður á, hver persóna er með sitt eigið markmið og leggst í helgan stein að því loknu.

Mynd
Frosthaven Gamplay
Stillt upp fyrir scenario 1

Þetta er allt þekkt fyrir þá sem hafa spilað Gloomhaven og spilast spilið að mestu leyti eins og Gloomhaven sömuleiðis. Enda eru allar persónurnar úr Gloomhaven einnig nothæfar í Frosthaven, sama gildir um persónurnar úr Jaws of the Lion. Ef þú átt öll þrjú spilin, þá ertu með 38 mismunandi persónur til að velja úr, en þar af eru 17 í Frosthaven (17 úr Gloomhaven og 4 úr JOTL).

Þó það sé engin þörf að spila Gloomhaven áður en Frosthaven er spilað ætla ég þó að gera ráð fyrir að lesandi þekki Gloomhaven hér eftir.

Mynd
Frosthaven Map
Kortið af Frosthaven er töluvert stærra en í Gloomhaven og er það sérstaklega vegna þess að Outpost er núna miklu stærra

Eins og áður hefur komið fram hef ég aðeins komið spilinu tvisvar á borðið hingað til þannig að þessi skref eru einungis fyrstu kynni af spilinu. Við erum 5 í spila hópnum þannig það eru ekki alltaf sömu aðilar við borðið og erum við því einnig búnir að prófa fimm af byrjunar persónunum sex. Persónurnar eru mis flóknar og eru með complexity rating, low/medium/high, 2 af hverri sort. Samanborið við persónurnar í Gloomhaven þykir mér þó allar persónurnar hafa meiri blæbrigði í nýja spilinu og heilt yfir örlítið flóknari en persónurnar í Gloomhaven. Eina persónan sem var ekki valin var Geminate, annar af high complexity karakterunum, en m.v. þessi tvö scenario sem við höfum spilað þá virðast þær allar svipað öflugar, þó auðvitað hafi hver sína styrkleika. Mér þykir sérstaklega vert að nefna að persónan sem ég valdi (þó óvart hafi verið, en ég greip rangt box úr kassanum fyrsta kvöldið) að boneshaper, sem er eins konar summoner class, þykir mér bara mjög fínn, en ég man að sambærileg persóna úr Glúm var sú versta í spilinu að mínu mati.

Mynd
Frosthaven - Insert

Spilið kemur einnig með insert og leiðbeiningar hvernig er best að raða í kassann sem er mjög gagnlegt miðað við fjöldan af íhlutum í spilinu og þó að kerfið okkar hafi verið mjög fínt í Gloomhaven þá þykir mér þetta töluvert þægilegra fyrir setup, þó frágangur sé sennilega svipaður.

Nýjasta viðbótin í spilið og það sem skilur Frosthaven og Gloomhaven einna hvað mest að, er Outpost Phase, hafði ég miklar áhyggjur af því að það myndi vera óþarfa “bloat” í spilið og ekki bæta neinu við. En sýnist það á öllu bara vera frekar straumlínulagað og smá auka krydd í lok hverjar spilunar. Þar gefst leikmönnum tækifæri á að crafta hluti, byggja byggingar og svo er dregið outpost phase spil þar sem einhver hlutur gerist, yfirleitt með einhverjum valmöguleikum eftir því hvernig fólk vill bregðast við. Stundum er verið að gera árás á bæinn, í öðrum tilfellum missir einhver pyngju og þó þarft að velja hvort þú vilt skila henni eða stela. Árásirnar á bæinn byggjast á nokkrum þáttum og þú getur byggt upp varnir en að mestu leyti snýst það einungis um heppni.

Mynd
Frosthaven - Gameplay 4

Nú hefur peningum líka að ákveðnu leyti verið skipt út fyrir ýmis konar hráefni, þegar óvinur deyr kemur út “loot token” í stað penings og dregið er spil sem sýnir hvaða hráefni það er, en í sumum tilfellum er það peningur. Þessi hráefni eru síðan notuð til að byggja byggingar og crafta hluti. Það er listi af hlutum sem hægt er að búa til  sem stækkar eftir því sem líður á, en það er einnig hægt að brugga seiði. Brugga seiði er mun meira spennandi en þar blandar leikmaður saman tveimur plöntum (eða þremur) plöntum sem hann á og fær seiði sem svarar til þeirrar blöndu. Í upphafi er ekki vitað hvaða plöntur búa til hvaða seiði og er spjald þar sem hægt er að opna ramma fyrir hverja blöndu í fyrsta skipti sem hún er brugguð. Síðan er sú uppskrift opin og vituð það sem eftir er leiks.

Mynd
Frosthaven - Gameplay 3

Það eru líka ýmis smáatriði sem hafa verið straumlínulöguð og bætt og þar er sérstaklega vert að nefna reglur varðandi advantage og disadvantage, en við ákváðum í Gloomhaven bara að búa til okkar eigin reglur í sambandi við það þegar við áttuðum okkur á því að þær voru flóknari en okkur þótti ástæða til.

Mögulega kannast einhver við að hafa reynt að gera mind map yfir hvernig öll scenario tengdust í Gloomhaven, allavega var það eitthvað sem minn hópur gerði og þurfti að hreinskrifa það nokkrum sinnum í gegnum spilið vegna þess hversu flókið það varð. Hér er búið að gera það fyrir þig en að ákveðnu leyti er það samt líka falið því hér eru aftur á ferð svipaðir rammar og þegar er bruggað, ekkert ósvipað jóladagatali í raun.

Heilt yfir líst mér bara mjög vel á þetta spil og í raun bara örlítið feginn hvað það tók langan tíma að komast til skila þar sem ég var kominn með leiða á Glúm undir lokin, Það tók okkur 63 spilanir að klára það, verður áhugavert að sjá hvað Frosthaven mun skila okkur mörgum og hvernig það mun þróast eftir því sem líður á. Sagan byrjar allavega vel og er augljóst að Isaac Childres, eigandi Cephalofair games skrifaði hana ekki sjálfur eins og fyrra spils.