Það eru til mörg öpp og vefsíður til að auðvelda okkur ýmist utanumhald á spilunum okkar. Við höfum Board Game Geek vefsíðuna þar sem við getum lesið okkur til um spil og ef við búum til notendaaðgang getum við haldið utanum spilasafnið okkar og spilanir. BGG Stats appið er frábært til að skrá spilanir, sem svo sendir skráningarnar (ef vill) til BGG síðunnar. Appið er líka til á íslensku (að mestu). Geekgroup.app birtir spilasafnið þitt á mun skemmtilegri hátt en BGG síðan. Og svo er til Aftergame.app til að halda utan um m.a. skipulagningu spila. Aftergame er bæði síða og app í símtæki.
Við hjá Borðspil.is höfum verið að fikta okkur áfram með Aftergame með góðum árangri. Svo góðum að við höfum ákveðið að nota það á Spilavin til að skipuleggja spil. En áður en við útskýrum það ætlum við aðeins að renna yfir hvernig appið virkar í grunninn.
Eftir að þú hefur stofnað reikning (það er alveg nóg að stofna ókeypis reikning) getur þú leitað að borðspil.is hópnum og skráð þig í hann. Skráning er opin.
Hópurinn er samfélag. Þar er hægt að búa til viðburði eins og Spilavin og BGG Topp 100 viðburðinn sem eru þar nú þegar, en einnig er hægt að skipuleggja einstaka spil. Og það er líka hægt að gera undir viðburðunum.
Ef þú opnar Spilavin sérðu að það er nú þegar búið að setja inn nokkur spil sem eru skipulögð af þátttakendum. Hildur ætlar t.d. að kenna Three Sisters spilið kl 13 á föstudeginum og Tryggvi er búinn að skipuleggja nokkur spil líka.
Til að óska eftir sæti á hvaða spili sem er sem er í boði er nóg að ýta á "Claim Seat" takkann og ef það er ennþá sæti laust ertu komin með sæti. Stundum er líka biðlisti, þannig að ef þér tókst ekki að grípa sæti núna, þá er möguleiki að ef það losnar sæti að þá sért þú næst/ur!
Til að skipuleggja spil, hvaða spil sem er, þá ýtir þú á "+ New" takkann og leitar að spilinu. Leitin fer fram í BGG gagnagrunninum þannig að það getur verið hvaða spil sem er. Undir grúppunni sjálfri er hægt að sjá spilasöfn þeirra sem eru í henni með því að smella á Collection. Ef þú finnur spil í eigu einhvers, getur þú smellt á dagatalshnappinn og skipulagt spil. Athugið samt að sú spilun er almenn skráning og skráist því ekki undir neinum viðburði.
Hvaða leið sem þú notaðir til að velja spil til að skipuleggja, þá opnast gluggi með grunnupplýsingum sem þarf að fylla út. Þú þarft ekki að fylla út dagsetningu og tíma, og við mælum reyndar með, ef þú ert að plana að spila spil einhvers annars að þú sleppir því til að gefa eigandanum og öðrum færi til að sýna áhuga á spilinu fyrst. Frekar að setja uppástungur um spilastað og tíma í athugasemdir. Nema auðvitað að þig langi að spila spil á viðburði eins og Spilavin, þá er spilastaðurinn nokkuð augljós :-) En aftur er gott að ekki endilega festa tíma og skipuleggja hann frekar í athugasemdaspjallinu.
Það eru nokkrar stillingar tengdar því hvernig spilunin er, hvort þú getir kennt og hvort spilarar þurfi að kunna spilið eða ekki. Sem dæmi gæti spilahönnuður skráð spil sem hann er með í prófunum undir "Playtest a prototype" þannig að allir viti hvað þeir eru að fara að gera. Einnig er hægt að biðja um að spilarar kunni grunnreglurnar og jafnvel að þeir séu með reynslu af spilinu, t.d. ef ætlunin er að spila spil eins og Twilight Imperium 4 og ætlunin er að nota viðbæturnar.
Valmöguleikarnir eru endalausir. Við hjá Borðspil.is hvetjum ykkur til að stofna notendaaðgang, sækja appið og byrja að skipuleggja. Allir viðburðir á okkar vegum eru opnir fyrir skráningar og til að taka frá sæti við borðið. Sem dæmi er Hilmar að spila sig í gegnum BGG Topp 100 og eru öll spilin sem eru eftir í þeim viðburði. Ef þig langar að spila með, endilega skráðu þig á spilið!
Vonandi sjáum við sem flesta spilara inni í hópnum okkar!