Topp 100 listi Hilmars (2022) - 70-61

# 70
Mynd
Trains

Trains

2021: # 226

Á 19. öld, skömmu eftir iðnbyltinguna, dreifðust járnbrautir hratt um heiminn. Japan, sem flutti inn vestræna menningu og var fús til að verða ein af stórþjóðunum, sá mörg einkarekinn járnbrautafyrirtæki verða að veruleika og gekk inn í gullöld járnbrautanna. Vegna aðgerða valdamikilla manna og fjármagnseigenda, sameinuðust mörg þessara smærri fyrirtækja á endanum saman í stærri.

Í Trains spila leikmenn slíka kapítalista, stjórna einkareknum járnbrautafyrirtækjum og leitast við að verða stærri og betri en samkeppnisaðilarnir. Leikurinn gerist í nútímanum, með hraðlestum, vöruflutningalestum og fleiru. Þú byrjar með lítið sett af spilum, en með því að byggja upp áhrifaríkari spilastokk í gegnum leikinn muntu geta sett stöðvar og lagt teina yfir kortin af Osaka, Tókýó eða öðrum stöðum. Galdurinn er að kaupa spilin sem þú vilt nota og nota þau síðan á eins áhrifaríkan hátt og mögulegt er. Að lokum muntu stjórna öflugustu járnbraut Japans!

Trains var fyrsti titillinn í "Destination Fun" seríunni frá AEG. Hin spilin voru Automobiles, sem er í 82. sæti hjá mér og Planes, sem myndi líklegast aldrei detta inn á neinn lista nema mögulega yfir bestu "miðlungsspilin".

Spilið er skemmtilegur stokkasmiður á borði sem kom út árið 2012 eða fjórum árum á eftir Dominion. Spilunum er eðlilega oft líkt saman enda er grunn gangverkið eins. Stóri munurinn er að þú mátt framkvæma eins margar aðgerðir og þú hefur spil til og kaupa eins mörg spil og þú getur, ólíkt Dominion. Einnig geta sumar aðgerðir, eins og að leggja niður lestarteina orsakað það að þú fáir rusl í stokkinn, spil sem gerir ekkert annað en að fyrir, þangað til þú losar þig við þau.

Ég hef gaman af stokkasmiðum og Trains ratar stundum á borðið hjá mér. Mér tókst líka að eignast Trains: Rising Sun, sjálfstæða viðbót á UKGE í fyrra og var ég einstaklega ánægður með það. Enda tekur spilið þvílíkt hástökk úr 226. sæti í það sjötugasta.

# 69
Mynd
Ankh: Gods of Egypt

Ankh: Gods of Egypt

2021: # 163

Leiktu sem einn af guðum forn-Egypta og kepptu um að lifa af þegar samfélagið byrjar að gleyma hinum gömlu siðum, svo að aðeins þú og fylgjendur þínir standa eftir.

Byggðu upp verslunarlestir, kveddu upp skrímsli og fáðu til þín fylgjendur á leið þinni að drottnun í Ankh: Gods of Egypt. Guðir, skrímsli og fólkið Egyptalandi til forna hefur verið endurskapað og túlkað í gullfallegum teikningum og nákvæmum módelum. Leikmönnum líður sannarlega eins og guðum þegar þeir hrikta í stoðum Egyptalands. 

Ég stökk á vagninn um leið og þriðja spilið í Eric Lang þríleiknum kom í hópfjármögnun enda höfðu hin spilin tvö vakið verðskuldaðan árangur (Spoiler, hvorugt þeirra náði samt inn á Topp 100 hjá mér). Svæðisstjórnun getur bæði lent ofan garðs og neðan hjá mér, en í Ankh virðist hún vera að klóra á réttum stöðum.

Ein er sú regla sem fer í taugarnar á mörgum og það er að þegar þriðji bardagi er búinn munu þeir tveir leikmenn sem eru með minnstu hollustuna frá fylgjendum þurfa að sameinast í einn, þ.e. ef leikið er með þremur eða fleirum. Sú regla fer ekkert rosalega í taugarnar á mér, bæði vegna þess að mér finnst spilið frábært tveggja manna spil, en ef ég er einn af þessum tveimur spilurum þá bara tek ég því sem hluta af leiknum að þurfa að sameinast. Og svo bara reyni ég að spila betur næst ;-)

Spilið er eins og áður segir frábært tveggja manna spil, það býður upp á hellings fjölspilunarmöguleika, þó svo að kannski sé það "yfir-framleitt", það hefði ekki þurft öll þessi skrímsli og alla þessa guði .... sérstaklega þegar man á 750 önnur spil til að spila. En það er samt svo gaman og þegar ég er búinn að klára að mála allt saman verður það enn skemmtilegra og fallegra á borðinu. Þegar.

# 68
Mynd
Small World

Small World

2021: # 115

Í Small World eru leikmenn að berjast um yfirráð í heimi sem er einfaldlega of lítill til að hýsa þá alla.

Spilið er hannað af Philippe Keyaerts sem fantasíu-framhald af verðlaunaspilinu Vinci. Í spilinu er hægt að velja um aragrúa af mismunandi fígúrum svo sem dvergum, töframönnum, risum, orkum og jafnvel mennskum verum sem nota hermenn sína til að ná yfirráðum á svæðum og vinna landvinninga á samliggjandi landssvæðum til að ýta öðrum fígúrum af yfirborði jarðar.

Með því að velja rétta samsetningu af fjórtan mismunandi kynflokkum og tuttugu mismunandi kröftum reyna leikmenn að stækka heimsveldi sín og oftast á kostnað veikari nágranna. En um leið þurfa þeir að vita hvenær best er að pakka saman og senda þjóð sína í hnignun til að ná öðrum kynflokki til valda og sigurs!

Small World er eitt af þessum spilum sem ættu að vera til á hverju heimili, í flokki með Ticket to Ride og Azul og fleiri sambærilegum spilum. Þessi frábæra leikaðferð að spila kynþátt þangað til hann kemst í þrot, láta hann hnigna og velja sér annan er geggjuð og hefur ekki sést í (mörgum) öðrum spilum. Það er auðvelt að kenna Small World og það er gaman að spila það. Ég komst yfir allar viðbæturnar á sínum tíma auk þess að eiga Underworld og því er hægt að blanda hressilega saman og fá skemmtilegar samsetningar.

# 67
Mynd
Barrage

Barrage

2021: # 73

Í dystópískum heimi á þriðja áratugnum ýtti iðnbyltingin nýtingu jarðefniseldsneytis til hins ítrasta og nú er vatnsaflið það eina sem er nógu öflugt til að svala þorsta hinna óstöðvandi verkfræðilegu framkvæmda í heiminum.

Barrage gengur út á auðlindastjórnun þar sem leikmenn keppast um að búa til risastórar stíflur, hækka þær til að auka geymslugetu og skila öllu mögulegu afli í gegnum þrystigöng tengd hverflum orkuvera þeirra.

Mér finnst heilabræðandi spil alveg einstaklega skemmtileg, eiginlega þeim mun meiri heilabráðnun, því betra. Barrage gerir það mjög vel. Það hefur líka eiginleika sem mörg Euro-spil hafa ekki og það er mikil samskipti á milli leikmanna. Einn leikmaður getur "stolið" öllu vatninu frá öðrum leikmanni og öll plön fara í skrúfuna. En að mestu er þetta samt kænskuleikur með skemmtilegum útfærslum.

# 66
Mynd
Thunderstone Quest

Thunderstone Quest

Nýtt á lista

Thunderstone er fantasíu-stokkasmiður. Hver leikmaður byrjar með grunnstokk af spilum sem hann getur notað til að kaupa eða uppfæra í önnur, sterkari spil (eins og nær allir aðrir stokkasmiðir). En í Thunderstone Quest kemur skemmtileg U-beygja þar sem spilið segir ákveðna sögu með forstilltum dýflissuflísum, skrímslum, hetjum og öðrum spilum. Hver saga er með röð af smáævintýrum og bæklingi sem segir leikmönnum hvað gerist þegar þeir spila sig í gegnum atburðarrásina.

Þegar leikmenn hafa lokið för sinni í gegnum ævintýrin er endurspilanleikinn samt mikill þar sem hægt er að nota handahófskennda aðferð við að stilla því upp. Og fyrir utan hetjur, galdramenn, fanga og klerka munu spil innihalda vistir sem hetjur þurfa eins og vopn, galdra, hluti eða bara ljós til að ná lengra inn í dýflissuna.

Dýflissustokkurinn er búinn til með því að sameina nokkrar tegundir skrímsla saman. Ákveðnir hópar af skrímslum geta verið viðkæmir fyrir ákveðnum hetjum og því verður að taka tillit til þess þegar þú kaupir spil í stokkinn.

Ahhhhh, stokkasmiður. Ævintýra-fantasíu stokkasmiður. Mér finnast þeir ekkert leiðinlegir sko :-) Hér er mjög skemmtileg nálgun á því hvernig spilið vefur sig utan um gangverkið og varpar einhverjum dýrðarljóma á allt saman. Ég á næstum allt fyrir Thunderstone Quest, spilið er geymt í tveimur risastórum kössum sem innihalda næstum ekkert nema spil og spilaplöst og því er þyngdin líka á við fermingarbarn. Mig langar bara að hætta að skrifa og fara að spila ...

# 65
Mynd
Legacy of Dragonholt

Legacy of Dragonholt

2021: # 80

Safnaðu saman hetjuhópnum þínum og ferðastu til Terrinoth ríkis í Legacy of Dragonholt!

Fyrsta, og líklegast eina spilið sem notar svokallað Oracle kerfi frá Fantasy Flight. Legacy of Dragonholt fangar anda spunaspilunar án þess að þurfa stjórnanda. Þetta frásagnarspil fyrir einn til sex?!? leikmenn gerir leikönnum kleyft að byggja upp hetju á einstakan hátt og ferðast með henni í gegnum sex göfug verkefni. Berjast við goblina, takast á við vondukalla og bæta við köflum í sögu þína.

Legacy of Dragonholt er frásagnarævintýraleikur í anda "veldu-þitt-eigið-ævintýri", tölvuleikja í opnum heimi og spunaspila. Ólíkt mörgum spilum snýst LoD ekki um að vinna eða tapa heldur að skapa söguna, ekki ólíkt spunaspilum, þó án þess að það þurfi sérstakan stjórnanda. Ævintýrið spilast af innæi leikmanna.

Ég veit að spilið segir einn til sex leikmenn, en mér hefur nú aldrei dottið í hug að spila það með svo mörgum! Ég hef reyndar bara spilað það einn en ég myndi kannski spila það með einum öðrum, bara til að upplifa söguna aðeins betur. En gangverkið er ósköp mikið bara einn leikmaður. Það gerir spilið samt ekkert verra, ég hef mjög gaman af fantasíusögum og stundum er þægilegt að geta spilað slíka sögu einn, þegar hópurinn er ekki með mani. 

Sagan er skrifuð af Nikki Valens, frábærum söguhöfundi sem hefur komið að mörgum af mínum uppáhalds spilum eins og Arkham Horror, Eldritch Horror og Mansions of Madness. Brotthvarf Nikki frá Fantasy Flight var sárt en mögulega er hún að hasla sér völl annars staðar í borðspilaheiminum með spilum á borð við Artisants of Splender Vale og viðbótabók fyrir Adventure Tactics spilin. 

# 64
Mynd
Glen More II: Chronicles

Glen More II: Chronicles

Nýtt á lista

Glen More II: Chronicles er framhald af Glen More og er spilaupplifunin er bætt til muna frá upphaflega spilinu.

Í Glen More II: Chronicles spilar hver leikmaður leiðtoga skoskrar ættar í upphafi miðalda og fram til byrjunar nítjándu aldar, leiðtoga sem leitast við að stækka svæði sitt og auð. Árangur ættar þinnar byggist á getu þinni við að búa til nýtt beitiland fyrir búfé þitt, rækta bygg til viskíframleiðslu, selja vörur á mörkuðum eða ná yfirráðum yfir sérstökum kennileitum og kastölum.

Leikurinn tekur fjórar umferðir, táknaður með fjórum bunkum af flísum. Eftir hverja umferð fá leikmenn stig eftir því hversu margar viskítunnur, skota í kastölum, kennileitaspila þeir hafa, miðað við þann sem fæst hefur, stigin eru mismunurinn á þessu tvennu. Eftir fjórðu umferð fá leikmenn líka stig fyrir gullpeninga og kennileiti en stig eru dregin frá ef þú ert með stærra landssvæði en sá sem minnst hefur.

Já það er hellingur í gangi í Glen More II. Ber það fyrst að nefna Chronicles partinn, en spilið er í raun samansafn af smáviðbótum sem hægt er að bæta við eða taka úr eftir hentugleika. Það verðlaunar þig með endurspilun án þess samt að vera með "campaign" eða "legacy" hluta. Misflókið er að bæta þessum viðbótum við, ég nota t.d. alltaf hæðina þar sem hún er mjög einföld en á enn eftir að prófa sumar af flóknari viðbótunum. 

Kosturinn við að búa með Hillu minni er einmitt að henni finnst skemmtilegt að spila sömu spilin aftur og aftur og því er möguleiki að ég nái að prófa aðeins fleiri af þessum Chronicles í framtíðinni. Og jafnvel að ég nái að prófa viðbótina líka ....

# 63
Mynd
Gutenberg

Gutenberg

2021: # 92

Í Gutenberg eru einn til fjórir leikmenn að spila frumkvöðla prentsins á fimmtándu öld. Með því að uppfylla pantanir geta þeir byggt upp auð sinn og frama. Það gera þau með því að stækka prentsmiðjurnar og fá stuðning frá fastagestum (patrons). Leikurinn vinnst hjá þeim prentara sem best gengur að byggja upp sína prentsmiðju.

Með því að bjóða í sérstakar aðgerðir byggja leikmennirnir upp prentsmiðjuna, kaupa leturgerðir, blek og skraut. Skemmtilegt tannhjólakerfi gerir leikmönnum kleyft að sameina bónusa og fá jafnvel enn fleiri stig. 

Við kynntumst Gutenberg spilinu í Essen 2021, hvar fjórir Íslendingar settust niður til að prófa. Og það kveikti einhvernvegin í okkur öllum. Það hvernig við veljum í hvaða röð við gerum aðgerðirnar er einstakt, hvernig við fáum meiri kraft í aðgerðirnar þegar við erum aftar í röðinni er algjörlega frábær nálgun. Algjörlega frábært spil sem náði ekki að koma í búðir á Íslandi fyrr en rétt fyrir jól að það dúkkaði upp í hillum Spilavina.

# 62
Mynd
Civilization: A New Dawn

Civilization: A New Dawn

2021: # 68

Sid Meier's Civilization: A New Dawn er herkænskuborðspil þar sem tveir til fjórir spilarar taka að sér hlutverk einhverns af leiðtogum eftirminnilegustu heimsveldum sögunnar. Þú stækkar lén þitt, öðlast nýja tækni og byggir upp undur veraldar. Að lokum mun ein þjóð rísa yfir allar aðrar og setja óafmáanlegt mark sitt á söguna.

Leikmenn byrja með dulið land til að uppgötva, smíða og fylla kortið með villimönnum, náttúruauðlindum og borgríkjum og móta heiminn að sýn þeirra. Leikmenn keppast við að verða fyrstir til að klára eitt markmið á hverju stigaspili, dreifa sér um heiminn og tryggja að þeirra heimsveldi verði það stærsta.

Ég elska Civ leiki og spilaði þá mjög mikið í tölvunni þegar ég var yngri. Sid Meier var minn kóngur. Því þótti mér ekki leiðinlegt að hægt væri að spila borðspil byggt á tölvuleikjunum, þó svo að einn hluti leikjanna, bardagarnir, eru töluvert abstrakt. Spilið er eitt af því fyrsta sem kom með aðgerðarspilin í svokallaðri á (river) þar sem aðgerðin verður betri eftir því sem spilið ferðast upp ána. Það gangverk var svo endurnýtt í öðru, öllu vinsælla spili, Ark Nova. En það er líka gott að taka góða hluti úr öðrum spilum og mér finnst það alveg jafn skemmtilegt í A New Dawn eins og Ark Nova.

# 61
Mynd
Whistle Mountain

Whistle Mountain

2021: # 94

Hönnuðurinn Scott Caputo tekur hér höndum saman við Luke Laurie (Manhattan Project: Energy Empire, Dwellings of Eldervale) til að búa til nýja tegund af verkamannaspili. Whistle Mountain kinkar kolli til forvera síns, Whistle Stop en spilin eiga samt næstum ekkert sameiginlegt, þar sem í staðinn fyrir lestarteina ertu að eiga við loftbelgi, loftskip og dreadnaughts. 

Í Whistle Mountain ertu að taka gríðalegan hagnað þinn úr járnbrautunum og fjárfesta í nýrri tækni, djúpt í Klettafjöllunum þar sem gnægt er af auðlindum. Stafsmennirnir byggja brjálaðan fjölda af vinnuppöllum og vélum, uppfæra æfileika þína og safna auðlindum. Þegar þú smíðar, með hjálp loftskipaflotans, veldur það bráðnun á snjónum í fjallinu og vatnið fyrir neðan hækkar sem stofnar verkamönnum þínum í hættu.

Af þvi að auðlindirnar sem þú safnar eru byggðar á því hvað er byggt þróast hver leikur á sinn hátt og eykur því mjög á endurspilanleika. Þú þarft að velja á milli þess að öðlast nýja hæfileika og að bæta eiginleikum á loftskipin þín og starfsmenn til að eiga möguleika á sigri í Whistle Mountain.

Lesendur eru kannski farnir að sjá trend í því hvað mér finnast vera skemmtilegustu spilin. Verkamannaspil eru alltaf auðfúsugestir á spilaborðið hjá mér og ef höfundum tekst að finna nýjar leiðir í að útfæra það gangverk þá er ég til. Þetta sambland af því að byggja vinnupallana, byggja upp aðgerðareiti, hvernig þeir svo fara undir vatn og hverfa þegar vatnið rís ... þetta er allt alveg einstaklega skemmtilegir hlutir. Mér fannst Whistle Stop vera skemmtilegt, Whistle Mountain er enn betra.