Topp 100 listi Hilmars (2022) - 50-41

Sex spil eru á uppleið og aðeins tvö á niðurleið, en tvö ný spretta hér fram. Það er langt síðan ég setti fram síðasta hluta en ég ætla að reyna að koma þessum lista frá mér fyrir páska.

Hvorugt nýju spilana vöktu furðu þegar ég sá þau detta inn, það eru bæði spil sem ég geri ráð fyrir að munu dvelja eitthvað á listanum hjá mér, af sitthvorri ástæðunni samt.

# 50
Mynd
Clank! A Deck-Building Adventure

Clank!: A Deck-Building Adventure

2021: # 106

Brjóttu þig inn í ævintýrið í stokkasmiðnum Clank! Þú þarft að laumast inn í bæli hins reiða dreka til að stela gullfallegum dýrgripum. Kafaðu enn dýpra til að finna jafnvel betri fjársjóði, fáðu ný og betri spil í stokkinn og sjáðu hvernig hæfileikar þínir á þjófasviðinu verða betri og betri.

Vertu snöggt og þögult. Eitt rangt skref og CLANK! Hvert einasta kæruleysislega hljóð mun fanga athygli drekans og hver einasti dýrgripur sem stolið er mun bara auka reiði hans. Þú getur nefnilega ekki notið ávaxtana ef þú ert dáið!

Clank! er stokkasmiður. Hver leikmaður hefur sinn eigin stokk og þú þarft sjálft að byggja stokkinn upp um leið og þú spilar. Hvert ger byrjar með (oftast) með fimm spil í hendi og þú mátt ráða í hvaða röð þú spilar þeim.

Enn einn stokkasmiðurinn á listanum hjá mér (nr. 7). Ég spilaði Clank! fyrst í ágúst 2018 niðrí Nexus og ég vissi strax að þarna var komið spil sem mér fannst frábært. Fjórtán spilanir á Clank! og þrjátíu og ein í heildina af öllum Clank! spilunum og ég fæ bara ekki leið. Catacombs! mun líklega á endanum skríða uppfyrir þetta en mér finnst samt einstaklega gaman að draga þetta spil fram og ég nota það oft til kennslu á stokkasmiðum (spoiler: Dominion er nr. 235, ég dreg þetta spil miklu frekar fram).

# 49
Mynd
Viscounts of the West Kingdom

Viscounts of the West Kingdom

2021: # 88

Viscounts of the West Kingdom gerist á þeim tíma þegar ríki konungs riðar til falls, um það bil 980 eftir Krist. Með því að velja frið framyfir velmegnun byrjaði hinn áður sterki konungur að bjóða óvinum sínum gull og land með það að leiðarljósi að stuðla til friðar. En friður getur verið óþægilegt mál. Þegar fátækt breiddist út misstu margir trúna á getu hans til að leiða og stjórna og sóttust eftir sjálfstæði frá krúnunni. Og af því að hann stjórnaði dómstólunum hefur framtíð okkar líka orðið óviss. Sem aðalsfólk þurfum við að vera vitur og ákveðin. Hollustu ber að halda uppi en mikilvægara er að ná hylli fólksins, ef skyndilega verður valdabreyting.

Markmið Viscounts of the West Kingdom er að enda uppi með flest stig í lok leiks. Þú færð stig fyrir að byggja byggingar, skrifa handrit, vinna í kastalanum og eignast afsöl fyrir nýju landi. Leikmenn byrja með nokkra þorpsbúa en fljótlega eru þeir komnir með betra hæfileikafólk til starfa. Í hverri umferð ferðast leikmenn um konungsríkið í leit að leiðum til að auka áhrif sín í samfélaginu. Leikurinn endar þegar konungsríkið endar annað hvort í fátækt eða velmegnun - eða hugsanlega bæði!

Viscounts of the West Kingdom er síðasta spilið í þríleiknum um vesturríkin. Það sem heillar mig mest við spilið er hversu einstaklega auðvelt er að velja sér 1-2 hluti til að vinna með og einblína svo bara á það. Jafnvel með fjórum leikmönnum eru leikmenn ekki allir að gera það sama og berjast um nákvæmlega sömu hráefnin eða sömu spilin þannig að einhverju finnst það aldrei vera að gera neitt. 

Viðbæturnar Keeper of Keys og Gates of Gold bæta svo hæfilega miklu við spilið án þess að gera það neitt flóknara, á þann hátt að ég tek þær ekki endilega úr þegar ég er að kenna spilið, amk. ekki ef spilarar eru hæfilega vanir. Og ég myndi líklegast ekki grípa þetta spil endilega fyrir óvana spilara hvort eð er.

# 48
Mynd
Wingspan

Wingspan

2021: # 50

Wingspan er miðlungsþungt, samkeppnisspil með vélaruppbyggingu sem aðalgangverk. Það er hannað af Elizabeth Hargrave og inniheldur yfir 170 fugla alla teiknaða af Beth Sobel, Matalia Rojas og Önu Mariu Martinez.

Þú spilar fuglaáhugafólk, fuglafræðinga og safnara sem leitast til að uppgötva og laða til sín bestu og fallegustu fuglana sem náttúran býður upp á. Hver fugl hefur sýna eigin krafta og hægt er að keðja saman aðgerðir margra fugla í eina í hverju geri. Í spilinu eru fjögur kjörlendi sem hvert einbeitir sér að ákveðnum hluta uppbyggingarinnar: Afla matar, verpa eggjum og laða til sín fleiri fugla. Leikurinn tekur fjórar umferðir og í lok leiks er það sú sem er með flest stig sem vinnur.

Ég var til þess að gera ekki kominn mjög djúpt í áhugamálið þegar Victor og Salóme kenndu mér Wingspan fyrst. Ég var ekki alveg seldur á þemanu og þekkti Stonemeier ekki svo mjög sem framleiðanda. Hafði þó spilað Scythe og heyrt um Viticulture. En það breyttist hratt enda er um að ræða eitt af betri spilum sem hafa verið gefin út og ég spái því að það muni vera til um aldur og ævi. Er það bæði vegna þess hversu einstaklega fallegt það er, en ekki síður vegna þess að Stonemeier heldur áfram að styðja við spilið með fleiri fuglum og fleiri viðbótum. Ég á enn eftir að spila Asia viðbótina, en hinar hafa mér þótt vera frekar skemmtilegar. Evrópuviðbótin er bara saman við grunnspilið, ég tek hana aldrei úr. Ég hef spilað spilið ellefu sinnum og tek það stundum fram þegar mig langar að kenna þyngra spil en samt ekki þannig að gestirnir komi aldrei aftur.

# 47
Mynd
Mice and Mystics

Mice and Mystics

2021: # 53

Í Mice and Mystics taka leikmenn að sér hlutverk þeirra sem enn eru hliðholl konungi, en til að flýja úr klóm hinnar illu Vanestru hefur þeim verið breytt í mýs! Í hlutverki þeirra eru leikmenn í kapphlaupi um kastalann, sem er orðinn tuttugu sinnum stærri en fyrr. Kastalinn var alveg nógu hættulegur með skósveina Vanestru ráfandi um allt en nú koma upp enn fleiri hættur sem herja á hetjurnar okkar, enda rétt á stærð við fíkjur. Þú getur valið að leika sem Prins Collin og notað skylmingatækni til að berjast áfram eða reynt að vera Nez Bellows, hinn mjög svo þrekni smiður. Einnig getur þú valið að vera töframúsin Maginos eða varið samspilara þína sem hjúkrunarfræðingurinn Tilda. Hver leikmaður hefur mikilvægt hlutverk í leiðangrinum til að aðvara konunginn og það þarf að nota allt hyggjuvitið til að finna veikleika Vanestru og sigra hana.

Spilið er samvinnuspil. Það sem heillar mig einstaklega er samspil sögunnar við gangverkið. Þó svo að allt að fjórir leikmenn séu saman er alltaf skemmtilegar umræður um hvað gera skal og reyna að finna leiðir fram hjá rottum, köngulóm eða hinum illræmda ketti. Sagan er mjög vel skrifuð, og þó hún eigi að höfða að einhverju leiti til yngri spilara hæfir það samt leikmönnum á öllum aldri.

# 46
Mynd
Marrakesh

Marrakesh

Nýtt á lista

Kepptu á móti öðrum mikilsmegandi fjölskyldum til að öðlast hinn virðingaverða titil "Obermufti" af Marrakesh, með því að nota aðstoðarmenn og auðlindir. 

Einn leikur af Marrakesh er spilaður yfir þrjár umferðir og í hverri umferð eru fjögur ger, eða samtals tólf í leiknum öllum. Í hverju geri velja leikmenn sér þrjá mismunandi litaða sívalninga sem tákna þær aðgerðir sem hægt er að gera. Sívalningunum er sleppt í turn og þeir sem rúlla út að neðan eru þeir sívalningar sem í boði eru í þessu geri. Reitir á borðinu eru svo virkjaðir og er endatakmarkið að safna sem flestum stigum.

Það væri nú ofsögum sagt að það væri mikið þema í þessu spili, það er ekkert nema gangverkið. En það er skemmtilegt gangverk. Ég fékk að koma aðeins að spilinu sem prófari og fékk að meira að segja kennslu frá meistara Feld sjálfum á meðan hann rústaði okkur í skemmtilegri spilaupplifun. Líklegast hefur það að hluta til áhrif á hversu ofarlega spilið er, en málið er bara að mig langar fjári oft að spila þetta spil.

# 45
Mynd
Architects of the West Kingdom

Architects of the West Kingdom

2021: # 51

Architects of the West Kingdom gerist í enda Karólínska keisaraveldisins, circa 850 eftir krist. Sem konunglegir arkitektar taka leikmenn að sér að heilla konunginn og halda tignarstöðu sinni með því að byggja ýmis kennileiti á yfirráðasvæðinu. Leikmenn þurfa að safna saman hráefnum, ráða til sín aðstoðarfólk og fylgjast vel með vinnuaflinu. Þetta eru ótryggir tímar og samkeppnisarkitektar munu gera allt til að hægja á framgangi þínum. Muntu enda dyggðum prýdd eða muntu finna þig á meðal ræningja og svartamarkaðsbraskara? 

Leikmenn fá stig fyrir að byggja byggingar og fyrir að leggja til vinnu við byggingu á dómkirkjunni. Í gegnum spilið þurfa leikmenn að taka ýmsar móralskar ákvarðanir, svo sem að ræna skattinn, fara á svarta markaðinn og handtaka starfsmenn annara arkitekta. En það er líka bara göfugt að halda í dyggðina, það fer í raun eftir hverjum og einum.

Ég féll svolítið fyrir þessum þríleikjum Shem Philips strax með North Sea þríleiknum. Mér finnast öll spilin í þeim þríleik fín og ekki er þessi verri. Hér er mest verið að vinna með verkamannagangverkið en í staðinn fyrir að vera með 2-3 verkamenn og kannski fá 1-2 í viðbót byrjar þú með tuttugu! Þú setur verkamann á reit og færð eitt hráefni. Setur annan í næstu umferð og færð tvö. Og svo þrjú og svo fjögur. Hvert ger í spilinu er alveg einstaklega hratt, settu niður verkamann, gerðu aðgerðina, sem nær alltaf er bara að sækja meiri hráefni eða byggja byggingu. 

Þetta er líka eitt af einstaklega fáum spilum sem hægt er að spila allt að sex (fimm án viðbótar) og samt hægist ekki á spilinu niður í stopp. Leiktími nær sjaldnast 90 mínútum, jafnvel með sex leikmönnum og svo er hægt að spila hvern spilara ósamhverfan ... Það virkar bara næstum allt í þessu spili!

Báðar viðbæturnar eru einstaklega vel heppnaðar. Age of Artisans er næstum því eins og einhver fúllyndur framleiðandi hafi klippt hana út einungis til að selja hana sér, svo vel fellur hún inn í spilið og Works of Wonders bætir við fjölbreytileikann þó svo að ég myndi kannski ekki alltaf nota hana.

# 44
Mynd
Eclipse: Second Dawn for the Galaxy

Eclipse: Second Dawn for the Galaxy

2021: # 20

Í Eclipse ertu að stjórna háþróaðri siðmenningu úti í geimnum sem keppast um að ná yfirráðum. Þú kannar ný stjörnukerfi, rannsakar nýja tækni og byggir geimskip til að nota í hernaði. Það eru margar leiðir að sigri svo þú þarft að skipuleggja þig gagnvart keppinautunum, bæði þeirra styrk- og veikleikum en ekki síður þínum eigin. 

Ég spilaði Eclipse: A New Dawn for the Galaxy rúmu ári áður en ég spilaði Twilight Imperium og það kveikti í mér að 4X spil gætu hreinlega verið skemmtileg. Áður var ég ekkert sérstaklega spenntur, einfaldlega vegna þess að mig langar ekkert mikið að ráðast á aðra, vil bara fá að vera í friði í mínu horni að byggja upp heimsveldið mitt í ró og næði. Eclipse er ákveðin stigsteinn upp í það því í því er ekki ofuráhersla lögð á stríð (þó svo að það sé það heldur ekki í TI4). Eini stóri gallinn við spilið er hversu random flísarnar og geimverurnar sem birtast geta komið út. Í einni spilun eyddi ég öllum mínum kröftum til að kanna tvisvar og fann tvær sterkustu geimverurnar í sólkerfinu á meðan meðspilararnir sigldu lygnan himingeim og fóru að framleiða á plánetunum sem þau fundu. Það var því á brattan að sækja í þeirri spilun. Sammt alltaf skemmtilegt og eins og með svo mörg svona stór spil þá ratar það allt of sjaldan á borðið hjá mér. 
 

# 43
Mynd
The Gallerist

The Gallerist

2021: # 38

Þessi nýja öld lista og kapítalista hefur ýtt á þörf fyrir nýtt starf - The Gallerist.

Með því að sameina hæfileika listaverasala, listræns stjórnanda og umboðsmann listamanns ert þú að fara að taka það starf að þér! Þú munt koma listamönnum á framfæri; kaupa, setja upp sýningar og selja listaverk frá þeim og byggja upp sérfræðiþekkingu á alþjóðavettvangi. Og niðurstaðan verður að orðspor þitt dregur að gesti alls staðar að úr heiminum, í þitt listasafn.

Það mikið starf fyrir höndum, en hafðu ekki áhyggjur, þú getur ráðir aðstoðarfólk til að ná markmiðunum. Byggðu upp veldi þitt með því að reka arðbærasta listaverkasafns heims og koma þér á stall með þeim allra bestu.

Vital Lacerda er á topp fimm yfir uppáhalds spilahöfundana mína og Gallerist var næstbesta spilið að mínu mati ... þangað til næst, en þá er líklegt að það detti niður í þriðja til fjórða út af dotlu ... Engu að síður alveg frábært spil, eins og flestöll spilin hans. Bræðir á mani heilann, heldur mani í stanslausri huxun um hvað skuli gera næst. Samspil þeirra vina hans og Ian O'Tool er alveg einstakt, íkonagrafían er skýr og aðgerðirnar ekki of margar, en samt þannig að mani langar að taka þær allar alltaf. Hlakka til að kenna fleirum það.

# 42
Mynd
It's a Wonderful World

It's a Wonderful World

Nýtt á lista

Í It's a Wonderful World ertu að byggja upp heimsveldið þitt og þú þarft að velja leiðina til framtíðar. Þú þarft að þróa hluti betur og hraðar en samkeppnisaðilarnir og skipuleggja útvíkkunina í þaula til að byggja upp og ráði yfir þessari nýju veröld

It's a Wonderful world er handagangs- (drafting) og vélaruppbyggingarspil fyrir einn til fimm spilara. Í hverri umferð draga leikmenn sjö spil og velja eitt þeirra, annað hvort til að endurvinna sem auðlindir eða til að byggja upp sem verksmiðjur til framleiðslu og/eða til að fá stig fyrir.

Spilin eru byggð með því að fá framleiðslukubba frá öðrum, fullbyggðum byggingum og getur nýbyggð bygging farið að framleiða um leið og hún kemst á laggirnar, ef framleiðsluferli hennar er ekki lokið. Því skiptir skiplag öllu máli.

Og til viðbótar við grunnspilið er hægt að spila átta leikja herferðarleik, þar sem saga bætist við spilið. Í hverri herferð bætast við ný spil og ný takmörk sem leikmenn þurfa að klára. Spilið er ekki legacy spil og því hægt að endurtaka herferðirnar aftur og aftur.

Spilið er eitt af þessum spilum sem er auðvelt að læra en vekur endalausa ánægju í spilun. Að einhverju leiti finnst mér ég geta borið það saman við Underwater Cities þó svo að gangverkið sé nú líkara 7 Wonders. Ég er búinn að spila í gegnum eina herferð og hlakka til að takast á við næstu fljótlega. Ein fyrsta herferðin sem við Hildur tókumst á við og við tölum reglulega um að koma þessu spili aftur á borðið.

# 41
Mynd
Batman: Gotham City Chronicles

Batman: Gotham City Chronicles

2021: # 57

Í Batman: Gotham City Chronicles er einn vondikall að takast á við teymi af hetjum í einni af mörgum sviðsmyndum. Hver hetja hefur sinn eigin leikmann til að stýra og gerir það með því að eyða orku í aðgerðir svo sem í líkamleg átök eða með árásum af færi og fá svo orkuna til baka í upphafi umferðar eftir því í hvaða stellingu þau eru. Ef hetja meiðist færist orka hennar yfir í slasaða svæðið og ef öll orkan tapast þurfa þau að verja tíma í að ná sér og safna upp orku aftur. Hver hetja er með mismunandi styrkleika og því getur verið gott að samhæfa þau sem fara saman í bardagann.

Óvinurinn á annað borð stjórnar teymi af handbendum og íkonískum vondiköllum úr Batman heiminum og þessir einstaklingar eru flísar á stjórnborðinu. Kostar það eina til þrjár orkur til að virkja hvern og einn um leið og þú færir þau frá vinstri til hægri niður línuna. Þegar vondikall hefur verið virkjaður fer hann aftast í röðina og þarf að bíða eftir því að vera virkjað aftur. En með því að borga vel er hægt að láta það gera aftur.

Gangverkið er byggt á öðru spili eftir sama framleiðanda, Conan. Ég hef spilað bæði spilin en ég verð að segja að mér finnst Batman betra spil, þó svo að ég tengi svosem ekki mikið við söguna frekar en við Conan.

Spilið hefur fengið á sig neikvæðan orðróm eftir að hafa verið útgefið tvisvar sinnum með alveg skelfilegri reglubók (sem hafði ekkert verið uppfærð frá því að Conan var gefið út), en þegar þriðja prentun var tilkynnt var Paul Grogan fenginn til að endurskrifa reglubókina frá grunni. Ég og Styrmir úr Pant vera blár fengum svo að spreyta okkur á reglubókinni í svokölluðu blindu prófi, þar sem við fengum engar aðrar leiðbeiningar en reglubókina. Við lús-lásum hana svo vel að það tók okkur næstum fjóra tíma að fara í gang með spilið, svo nákvæmlega lásum við hana, fram og til baka. Og við getum staðfest að reglubókin er bara fín núna. Við gátum spilað spilið með mjög fáum spurningum og svörin fundum við í bókinni. Ég hef spilað spilið þrisvar, einu sinni á borði og tvisvar á TTS og ég fór allur inn þegar þriðja prentun fór í gang. Það eru einhver tugir kílóa af plasti á leiðinni til mín ....