Mán 24. júl 2023 til Sun 30. júl 2023
Það er greinilegt að ég er að komast í gang aftur eftir talsverða lægð í spilum undanfarið og þriðja góða vikan hefur litið dagsins ljós. Nokkur ný og nokkur eldri eins og alltaf, eiginlega bara nokkuð fín blanda þó ég segi sjálfur frá.
Hrærigrautur
"Hvað er nýja vinsælasta íslenska spilið?" er sú spurning sem oftast er spurð fyrir hver jól í spilaverslunum landsins. "Mig vantar möndlugjöf fyrir 12-16 spilara!". Og út kemur Hrærigrautur.
Það er eins og íslenskir spilahöfundar (fyrir utan kannski 3-4) kunni bara eina listgrein: Að blóðmjólka Skjöldu gömlu, þó svo að kusan sú sé löngu dauð!
Hrærigrautur er byggt á Kappsmáli. Og alveg skelfilega illa. Í spilinu eru sjö flokkar og á að spila eina umferð með hverjum flokki. Einn keppandinn er dómari og tekur því ekki virkan þátt í spilinu (WTF!). Síðan er næstum hver einasti liður úr kappsmáli kóperaður í þessa sjö flokka.
Málið er að það sem hægt er að gera í sjónvarpi virkar ekkert svo rosalega vel í sumarbústað með fullt af drukknum einstaklingum. Sérstaklega ekki þegar reglurnar eru svo illa skrifaðar að það er enganvegin hægt að skilja hvað á að gera í fjandans spilinu! "Keppendur eiga að útskýra orðið á spjaldinu án þess að nota orðið sjálft". EN ÞAÐ ERU ÞRJÚ ORÐ Á SPJALDINU! Dómarinn er ekki með sömu röð á flokkunum og regluspjaldið! Og svo mætti lengi telja. 15 mínútur af yfirlestri hjá fólki sem spilar bara smá og eru ekki vinir höfundana hefðu fundið fullt af svona smáreglum.
Spilið er algjört helvítis drasl og ég mæli ekki einu sinni með því sem uppkveikiefni í varðeld (af því að það er óumhverfisvænt)
1/10
Charterstone
Ég er búinn að reyna með tveimur aðskildum spilahópum að komast í gegnum Charterstone, án árangurs. Mestmegnis er það vegna þess að þegar sex einstaklingar eru að spila Legacy spil þá er mjög erfitt að fá alla til að koma saman á einn stað á ákveðnum tíma.
Þannig að nú prófuðum við Hildur að spila bara tvö og nota frekar tvær sjálfvirkar vinnuvélar til að taka þátt með okkur með ágætis árangri.
Við fórum frekar hratt í gegnum fyrstu tvær spilanirnar og erum búin með þrjár samtals. Mér finnst þetta spil alveg frábært, það er skemmtilegt að sjá hvernig byggingarnar bætast við eftir því sem líður á spilið og hvernig þú breytir taktíkinni í hverri spilun. Ég vona að okkur takist að lokum að klára spilið, ef ekki við tvö, þá klára ég það solo með fimm sjálfvirkum!
8/10
Frosthaven
Við náðum tveimur frábærum spilunum í þessari viku, ekki síst vegna þess að við byrjuðum snemma og vorum að spila tengd ævintýri, þ.e. að við þurftum ekki að fara til Frosthaven á milli. Það hjálpar oft til varðandi lengd spilana, enda getur ferðalagið til Frosthaven oft tekið 30-40 mínútur hjá okkur.
Ég er alveg að verða búinn að uppfæra leikmanninn minn, það mun gerast í þarnæsta sinn sem við förum til Frosthaven. Ég er að spila Geminate leikmann sem er alveg ágætur, en ég er kominn upp á Level 5 og langar að fara að prófa annan auk þess sem mig langar að sjá hvað gerist næst í sögunni. Svo er líka alveg að fara að koma vetur ....
10/10
Paris: La Cité de la Lumiére
Paris er tveggja manna flísalagningarspil með polyomino flísum eins og milljón önnur. Breytingin er að þú byrjar á því að leggja niður undirstöður fyrir flísarnar og á þessum undirstöðum eru annað hvort litur þinn, litur andstæðingsins, hlutlaus fjólublár litur og/eða ljósastaur. Síðan leggur þú flísarnar niður þannig að þær fái ljós frá einum eða fleiri ljósastaurum því þannig færðu stig. Sem og fyrir lengstu samtengdu byggingarnar.
Ágætis spil alveg en ekki fyrir mig. Ég er aðeins of ferkantaður til að sjá hvaða leiðir eru bestar í að leggja niður flísarnar og fyrir snögg tveggja manna spil eru mörg önnur sem ég tæki framyfir þetta.
6/10
Expeditions
Nýja Stonemeier spilið sem beðið hefur verið með eftirvæntingu. Spilið er sjálfstætt framhald af Scythe en fyrir utan stjörnurnar, mech-ana og gullfallegar teikningar er lítið sem tengir spilin saman.
Þetta er vélaruppbyggingarspil og grunnreglurnar eru frekar einfaldar. Leikmenn reyna að næla sér í spil til að spila út og virkja aukaaðgerðir til að geta endurtekið nokkrum sinnum ákveðna hluti sem þeir fá svo stjörnur fyrir (eins og í Scythe). Fyrsti til að setja út fjórðu stjörnuna setur endaleikinn af stað og umferðin er kláruð. Flest stig sigra.
Það er margt áhugavert hérna. Til dæmis að af þeim þremur grunnaðgerðum sem þú getur gert þarft alltaf að velja eina þeirra til að hylja og framkvæma hinar tvær. Nema ef þú endurstillir borðið, þá færðu öll spilin þín til baka og færð líka að gera allar þrjár aðgerðirnar einu sinni. Einnig hvernig spilin virkjast. Þú færð alltaf grunnauðlindina af spilinu (power eða guile) en þú getur líka sett verkamann á spilið og þá færðu aukaaðgerðina af spilinu. Ef spilið er hlutur getur þú uppært það spil og látið það vera virkt það sem eftir er, þú gætur brætt loftsteina og fengið bónusa frá þeim og þú getur lokið við leiðangra sem telja upp í lokastigin í spilinu.
Ágætis spil alveg en það er fátt mjög nýtt í því. Ég keypti það að mestu leiti vegna söfnunaráráttunnar í mér, ef hún væri minni myndi ég líklega ekkert þurfa að eiga þetta spil, þó svo að það sé bara fínt. Ég vil nú samt spila það nokkrum sinnum í viðbót áður en ég tek einhverjar gerræðislegar ákvarðanir varðandi það. Enda voru járn-mech-ar í kassanum ;-)
7.5/10
Lisboa
Það er svolítið síðan ég uppgötvaði að ég er algjör Vital Lacerda viftudrengur, það er eitthvað svo dulúðlegt sem dregur mig að spilunum hans. Mér finnast reyndar mjög þung spil mjög heillandi, þau virka vel fyrir heilann á mér án þess að valda heilablóðfalli.
Við strákarnir helltum okkur því í Lisboa, eitt af síðustu spilunum sem ég á eftir að spila frá þessum frábæra höfundi. Og það olli ekki vonbrigðum. Björn Orri fékk alveg þokkalegt heilablóðfall á meðan við vorum að spila, það er alltaf góður vísir í Lacerda spili.
Það kallar samt á endurtekna spilun mjög fljótlega. Valdi hafði ekki spilað það í tvö ár og hann var langsíðastur. Og mundi sama og ekkert af reglunum. En þannig eru oft Lacerda spil, þú þarft að læra þau upp á nýtt ef þau eru ekki spiluð reglulega.
Þarf að spila það aftur áður auk nokkurra annara aftur og Escape Plan sem ég hef ekki spilað til að geta raðað þeim örugglega í einhverja skemmtilega röð.
8.5/10
Marrakesh
Marrakesh er nýtt spil eftir Stefan Feld í City Collection línunni frá Queen Games. Ég var að spila það í fjórða skipti en ég var svo heppinn að fá að prófa það á meðan það var enn í þróun og því gaman að spila það líka í lokaútgáfunni. Þetta er s.s. mín fyrsta spilun af því í "Deluxe" útgáfunni á borði (sum okkar vitum hvað Deluxe þýðir hjá Queen Games).
Ég er ekki viss um að spilið henti almennilega sem tveggja manna spil. Í hverri umferð velur þú í laumi þrjá sívalninga til að spila og fyrir hvern og einn setur þú aðstoðarmann niður í þess-litað svæði. Síðan eru allir sívalningarnir settir í turn (sem stundum hindrar það að allir komist niður) og þú getur svo valið úr þeim sem velta út. Því fleiri sívalninga sem þú hefur í hverju svæði, því sterkari verður aðgerðin.
En þegar það eru bara tveir spilarar er oft lítið um að báðir velji sömu liti. Þú mátt nefnilega velja tvo sívalninga í hverju geri. Og það veldur oft skemmtilegum keðjuverkunum þegar þú færð marga. En þrátt fyrir það er spilið einstaklega skemmtilegt og ég mun spila það hvenær sem er.
8.5 /10