Frábær spilahelgi á Spilavin

Submitted by Hilmar Kári on

Mon 30. Jan 2023 til Sun 05. Feb 2023

Frábær spilahelgi að baki á Spilavin Pant vera blár og Spilavina (og nú borðspil.is). 40 manns hvaðan af landinu hittust í annað sinn á Hvolsvelli og spiluðu í 50 klst nær samfellt. Það er nokkuð ljóst að þessi viðburður er að festa sig í sessi hjá borðspilurum landsins.

Image
Wayfarers of the South Tigris
Byggja þarf bæði til sjávar og sveita, sem og upp í himingeiminn

Wayfarers of the South Tigris

4
1

Wayfarers of the South Tigris gerist á hátindi Abbasid kalífadæmisins, circa 820 eftir krist. Sem hugrakkir landkönnuðir, kortagerðamenn og stjörnufræðingar leggja leikmenn af stað frá Bagdad til að kortleggja landið í kring, vatnaleiðir og himinninn sjálfan. Leikmenn stjórna lest af verkamönnum og búnaði á sama tíma og þeir tilkynna reglulega skráningar á niðurstöðum í Hús fræðanna. Mun þér takast að heilla kalífann eða villast af leið og lúta í lægra haldi fyrir óbyggðunum?

Markmið Wayfarers of the South Tigris er að vera sá leikmaður með flest stig í leikslok. Stig fæst fyrst og fremst með því að kortleggja landið, vatnið og himininn. Spilarar geta líka fengið stig með því að uppfæra lestina sína, með því að fá innblástur frá aðalsmönnum og með því að hafa áhrif á þrjú samtök vísinda, viðskipta og könnunar. Þegar þeir gera uppgötvanir vilja leikmenn fljótt skrá framfarir sínar. Leiknum lýkur þegar einn leikmaður hefur náð lengst til hægri á dagbókarbrautinni.

Wayfares er fyrsta spil í þriðja þríleik Shem Philips hjá Garphill Games frá Nýja Sjálandi. Hinir tveir þríleikirnir, North Sea og West Kingdom hafa fengið verðskuldaða athygli, sér í lagi West Kingdom, en eitthvað er um að amk. Seafarers of the North Sea sé ekki talið jafn gott og hin (undirritaður er bæði sammála og ósammála). 

Spilið lofar góðu og er greinilegt að Shem og meðhöfundur hans, S J  Macdonald eru að halda áfram að þróa gangverk sem virkar. Í þessum þríleik eru þeir að vinna mikið með teninga, tengingarnir eru notaðir til að virkja aðgerðir og er hægt að kaupa flísar til að geta virkjað fleiri "góðar" aðgerðir. Mjög áhugaverður leikur með fullt af skemmtilegum ákvörðunartökum.

Image
Love Letter
Það er mikið spark í svona litlu spili

Love Letter

4
1

Allir gjaldgengu ungu mennirnir (og margir sem eru ekki svo ungir) leitast við að biðja prinsessunar af Tempest. Því miður hefur hún lokað sig af inni í höllinni og þú verður að treysta á aðra til að taka rómantísku bréfin til hennar. Munu þín bréf ná til hennar fyrst?

Love Letter er leikur áhættu, útilokunar og heppni fyrir 2-4 leikmenn. Markmiðið er að koma ástarbréfinu þínu í hendur Annette prinsessu á meðan þú reynir að komast framhjá keppinautum þínum. Stokkurinn er aðeins sextán spil, hver leikmaður byrjar með eitt spil og eitt spil er tekið út úr leiknum. Í hverri umferð dregur þú eitt spil og spilar svo út einu spili. Með því reynir þú að afhjúpa önnur spil og koma þeim leikmönnum út úr leiknum. Öflug spil gera þig að auðveldu skotmarki en ef þú treystir of lengi á veikari spilin verður bréfi þínu kastað á eldinn!

Frábært uppfyllingarspil sem gaman er að grípa í í lok kvölds. Jafnvel þó svo að ég hafði dregist verulega afturúr náði ég á undraverðan hátt að koma til baka, þó svo að ég hafi svo tapað (eins og oftast).

Image
Spilavin Spilavina og Pant vera blár 2023 - Pub Quiz
Frá bar-svari Spilavinjar

Spilavin Pant vera blár, Spilavina og borðspil.is

Restin af spilununum náðist á Spilavin Pant vera blár, Spilavina og borðspil.is Og mikið óskaplega var gaman að fá að halda þennan viðburð. 40 spilarar mættu og skemmtu sér konunglega við að spila úr safni 200 spila, bæði úr safni Hilmars en einnig komu þátttakendur með mikið af sínum eigin spilum. Við náðum næstum að sprengja af okkur húsnæðið og þarf annað hvort að setja mörk á næstu vin (ca. 50 manns) eða finna annan vettvang. Þó verður að segjast að aðbúnaðurinn á Hótel Hvolsvelli er alveg einstakur fyrir svona viðburð, hæfilega langt frá Reykjavík, herbergin tiltörulega ódýr og aðbúnaður að megninu til góður. Ekki skemmir að veitingahúsið á staðnum er með afbragðs mat og því þarf aldrei að fara úr náttbuxunum á meðan að á dvölinni stendur.

Image
Tiletum
Tengingahringekjan

Tiletum

4
1

Í Tiletum taka þú og aðrir leikmenn að ykkur hlutverk ríkra kaupmanna sem ferðast um Evrópu, frá Flæmingjalandi til Feneyja á gullöld endurreisnartímans.

Þið ferðist til ýmissa borga til að komast yfir viðskiptasamninga fyrir ull og járn, sem og safn af skjaldarmerkjum borganna. Þið verðið að safna nauðsynlegu fé til að uppfylla samninga, fjárfesta í byggingu á stórkostlegum dómkirkjum, öðlast hylli aðalsfjölskyldna og taka þátt í mikilvægum sýingum þar sem aðalviðskipti þín eiga sér stað. Þannig muntu vaxa í áliti sem á endanum gerir þig að frægasta kaupmanni endurreisnartímans.

Tiletum er teningastjórnunarleikur þar sem teningarnir hafa tvöfalt hlutverk; að afla fjármagns og framkvæma aðgerðir. Ákveðnum fjölda teninga er kastað í hverri umferð og þegar þú gerir velur þú þér einn. Liturinn segir til um hvaða auðlind þú færð, talan segir hversu margar einingar. Og hin hliðin á teningnum segir til um hversu marga aðgerðapunkta þú færð. Styrkur aðgerðarinnar er alltaf í öfugu hlutfalli við verðmæti auðlindanna, því fleiri auðlindir, þvi færri aðgerðapunktar, og öfugt.

Þemað í þessu "T-spili" er nú töluvert minna en lýsingin gefur til kynna, það er varla til staðar. Spilið er meira samansafn af áhugaverðum aðgerðum og gangverki. 
Spilið gengur mikið út á að ná samlegðaráhrifum á aðgerðum, fá flísar sem leyfa þér að gera aðgerðir aftur eða sterkar. En það er mjög áhugavert samt og hægt að kremja heilann pínulítið í ákvörðunartökum. Fjögurra manna leikur getur samt dregist óhóflega eins og svo oft í Euro spilum.

Image
Architects of the West Kingdom

Architects of the West Kingdom

5
1

Sögusvið Architects of the West Kingdom er Karólínska heimsveldið, circa 850 eftir krist (það er ákveðið þema í þessu hjá Shem). Sem konunglegir arkitektar keppast leikmenn við að heilla konunginn og viðhalda göfugri stöðu sinni með því að að smíða ýmis kennileiti um nýskipað lén hans. Leikmenn þurfa að safna hráefnum, ráða lærlinga og hafa vakandi auga með vinnuaflinu. Þetta eru svikulir tímar og samkeppnisarkitektar munu svífast einskis við að hægja á framförum þínum. Verður þú áfram dyggðugur eða finnur þú þig í félagsskap þjófa og svartamarkaðssinna.

Markmið Architects of the West Kingdom er að vera sá leikkmaður sem flest stig hefur í leikslok. Stig fást með því að reisa ýmsar byggingar og efla vinnu við dómkirkju erkibiskupsins. Leikmenn þurfa í leiknum að taka margar siðferðislegar ákvarðanir en aðeins í leikslok verður dyggð þeirra dæmd. Leiknum lýkur þegar tilteknum fjölda framkvæmda hefur verið náð.

Fyrsta spilið í öðrum þríleik Shem Philips er Architects, af mörgum talið eitt af hans bestu spilum. Gangverkið er verkamannaspil, en í staðinn fyrir að byrja með 2-4 verkamenn og fá kannski 1-2 í viðbót byrjar þú með 20! (nema að þið spilið ósamhverft, þá fær hver og einn mismunandi fjölda). Þú setur einn verkamann niður í steinanámuna og þú færð einn stein. Setur svo annan niður og færð tvo. Náir þú að koma fimm niður í námuna færðu samtals 15 steina! (5+4+3+2+1). En þá fara hinir af stað og taka verkamennina þína fasta og henda þeim í fangelsið (fyrir pening auðvitað), og þá þarftu að byrja upp á nýtt. Ákaflega skemmtileg nálgun á verkamannagangverkið og greinilegt að Shem hugsaði mikið út í að gera spilið skemmtilegt. Ekki spillir fyrir að aðgerðir eru mjög hraðar, settu niður verkamann og taktu hráefnið! Fimm og sex manna leikir eru ekki að skríða nema upp í uþb 90 mínútur sem er ekki mjög algengt með Eurospil. Því er Architects oft það spil sem ég gríp í þegar mig langar í eitthvað hratt fyrir marga leikmenn. Þetta var sextánda spilunin mín og ég er vel til í aðrar sextán! 

Image
The Crew - Mission Deep Sea
Spilin eru frá 1-9 í fjórum litum, og svo tromp

The Crew: Mission Deep Sea

5
2

The Crew: Mission Deep Sea, sem er slagaspil, vinna þú og hinir leikmennirnir saman að því að leita að hinni týndu heimsálfu, Mu. Þetta ævintýri tekur mannskapinn djúpt niður í hyldýpið í leit  að hinu sögufræga sokkna landi. Hversu langt þú nærð fer algjörlega eftir því hversu vel þið vinnið saman sem leið. Spil fyrir spil, slag fyrir slag mun leitarhópurinn takast á við hverja áskorunina á fætur annari og finna leiðina til Mu.

Í þessari nýju útgáfu af The Crew er sama nýstárlega samvinnu-slaga-gangverkið sem var kynnt í upprunalega spilinu en með nokkrum spennandi nýjungum. Þó samskipti milli áhafnameðlima í kafi séu mjög takmörkuð er það líka mikilvægt til að ná árangri í gruggugu vatninu og semja þarf vandlega um röðina sem slagirnir eru teknir. Ef hlutirnir fara ekki eins og áætlað var er samt möguleiki að bjarga leiðangrinum og með smá heppni að ná loksins til Mu.

Annar fínn slagaleikur sem er næstum því eins og sá fyrri. Gagnrýnendur eru á einu máli um að það sé nóg að eiga annað spilið, ef þú átt fyrra "þarftu" þetta ekki, en ef þú átt hvorugt, keyptu þetta. (Ég á auðvitað bæði). Ég hef spilað mikið af slagaspilum í gegnum tíðina, Bridge, Hornafjarðarmanna og Kana en þetta spil bræðir hausinn á flestum slíkum spilurum, enda finnst þeim alveg stórfurðulegt að spila allir saman að takmarkinu. Ég væri alveg til í að taka fleiri hendur en bara eina eða tvær í hvert sinn og sjá hversu langt ég kemst, en hingað til hefur þetta bara verið ígrip og/eða kennsla.

Image
Blood on the Clocktower
Áhugasamir leikmenn spila Blood on the Clocktower

Blood on the Clock Tower

16 & 18
2

Í hinu þögla þorpi Ravenswood Bluff gengur djöfullinn á meðal vor...

Á meðan að djöfullegt þrumuveður gengur yfir á miðnætti hljómar hrollvekjandi öskur. Bæjarbúar flykkjast að til að rannsaka og finna sögumann bæjarins myrtan, lík hans fest á vísa klukkunnar í klukkuturninum og blóð hans lekur á steinana fyrir neðan. Djöfullinn er laus, myrðir á nóttunni og dulbýr sig í mannsmynd á daginn. Sumir hafa brot af upplýsingum, aðrir hafa hæfileika sem berjast gegn hinu illa eða vernda saklausa. Einhver er fullur. En er djöfullinn og handbendi hans að dreifa lygum til að rugla fólk og ala á tortryggni? Munu góðu bæjarbúarnir ná að púsla saman sögunni í tæka tíð? Eða mun illskan taka yfir þetta einu sinni friðsæla þorp?

Blood on the Clocktower er blöffleikur fyrir 5 til 20 leikmenn í anda Werewolf. Sögumaður stýrir leiknum en markmiðið er að draga úr áhrifum djöflana og drepa þá áður en þeir verða fleiri en bæjarbúar.

Það hafa margir beðið eftir þessu spili með mikilli eftirvæntingu og ég var spenntur fyrir að prófa. Uppsetning er þó nokkur og það er mjög mikilvægt að sögumaðurinn þekki spilið og hlutverkin vel. Fyrsta spilun fór aðeins út af sporinu vegna misskilnings á reglum en seinni spilunin gekk mun betur. Góða fólkið náði á endanum að drepa djöfulinn en þó verður að segjast eins og er að djöflarnir léku einstaklega vel og mjög mjótt var á mununum.

Að því sögðu, þá langar mig ekkert óskaplega að spila þetta spil aftur. Það var alveg einstaklega hægt, seinni spilunin teygðist i næstum tvo tima og margir höfðu ekkert að segja eftir að þeir höfðu fengið upplýsingar í upphafi spils. Ég lék borgarstjórann sem hafði ekkert vægi í spilinu fyrr en alveg undir blálokin (sem við náðum ekki til) og þar fyrir utan var ég "fulli kallinn" og því hélt ég bara að ég væri borgarstjórinn.... Annar leikmaður næstum sofnaði í spiluninni! (Við vorum reyndar að spila til klukkan þrjú um nótt). En það breytir því ekki að þetta verða líklegast einu tvær spilanirnar á þessu spili hjá mér. Ágæt skemmtun, sér i lagi þegar ég áttaði mig á því að "vitlausi spilarinn" mér á hægri hönd var að leika djöfulinn alveg einstaklega vel, en ég þarf ekki að spila þetta spil oftar.

Image
Atiwa
Nokkuð klassískur Uwe, samt í léttari kantinum.

Atiwa

4
1

Atiwa Range er svæði í suðausturhluta Gana i Afríku sem samanstendur af bröttum hæðum með frekar flötum tindum. Stór hluti útbreiðslusvæðisins samanstendur af sígrænu skógarverndarsvæði sem er heimili margra tegunda í útrýmingarhættu. Hins vegar er skógarhögg og veiðar á búrkjötu, sem og námuvinnslu á gulli og báxíti að eyðileggja landið.

Á sama tíma rétt hjá, í bænum Kibi, er borgarstjórinn að valda uppnámi með því að veita fjölda ávaxtaleðurblaka skjól í garðinum hjá sér. Hann hefur gert sér grein fyrir hversu miklis virði dýrin hafa á skóglausum svæðum plánetunnar. Ávaxtaleðurblökur sofa á daginn og leggja af stað við sólsetur í leit að æti sem þær finna í ávaxtatrjám í allt að sextíu kílómetra fjarlægð. Þær skilja eftir fræ af ávöxtunum sem þær borða um stór svæði þegar þær fljúga heim. Ein nýlenda með 150.000 leðurblökum getur ræktað upp skóglendi sem er um tvö þúsund hektarar á ári.

Nýtt spil frá meistara Uwe Rosenberg sem ég keypti á Essen í fyrra. Spilið er nokkuð hefðbundið fyrir Uwe, verkamannaspil þar sem þú þarft að gefa fólkinu þínu að borða í hverri umferð og dýrin fjölga sér eftir aðferðum sem fá Darwin til að snúa sér í gröfinni. Þetta spil er samt ekki eins þungt og mörg önnur Uwe spil og hentar því ágætlega við að kenna gangverkin. Það eru skemmtilegir fídusar í spilinu og t.d. er ein regla sem tekur fram að það sé allt í lagi að gleyma að framkvæma eina aðgerðina, þú hefur alveg þangað til að kemur að þér aftur til að framkvæma hana, vegna þess hversu oft hún gleymist! Það er góð regla vegna þess að hún hefur lítil sem engin áhrif á spilið. 

Það eina við spilið sem gefur því ekki hærri einkunn en svona 7 er að það er lítil fjölhæfni í því, næstum allar spilanir eru svipaðar og ég sé mig ekki spila þetta spil kannski oftar en tíu sinnum. 

Image
Sabika - Gameplay
Fjórir verkamenn í þremur flokkum

Sabika

4
1

Í hæðum Al-Sabika í Ganada skapaði Nasrid ættin eina glæsilegustu byggingu sögunnar, Alhambra.

Í Sabika leikur þú hlutverk eins af aðalsmönnum Nasrid ættarinnar sem lagði sitt af mörkum við byggingu turna, garða og halla þessa forna minnismerkis. Til biðbótar við þetta virðulega verkefni þarftu að koma á viðskiptaleiðum um Evrópu og Maghreb. Þær leiðir munu veita þér nægar tekjur til að geta borgað skattinn sem kalþólsku konungarnir hafa sett á. Í skiptum fyrir vinnuna færðu vernd gegn hinum ýmsu átökum sem herja á Taifas ríkið.

YAE (Yet another Euro) er það sem lýsir þessu fallega spili eftir Germán P. Milián, höfund Bitoku. Það er samt einhvernvegin alveg með ólíkindum hvernig mönnum tekst að búa til nýjar leiðir til að elda fiskinn. Hér hefur þú fjóra verkamenn, tvo smiði, kaupmann og ljóðskáld, sem ferðast á hringekju til að velja sér aðgerðir. Smiðirnir vinna bara á ysta hringnum, kaupmaðurinn í miðjunni og ljóðskáldið í innsta hringnum, og hver hringur hefur mismunandi aðgerðir. Kostnaður við að byggja er oft bara eitt hráefni, sem þú færð eitt eða tvö stig fyrir að nota, en þú mátt nota allt að tvö önnur mismunandi hráefni við bygginguna og fá fyrir það fleiri stig, nokkuð sem ég hef ekki séð áður. Margt annað áhugavert er einnig í gangi í spilinu og ég hlakka til að prófa það aftur, vonandi bara í vikunni. Virkilegur heilabræðari sem gaman er að takast á við.

Image
Ark Nova
Ég get setið endalaust og dáðst að uppbyggingunni í dýragarðinum mínum

Ark Nova

4
1

Í Ark Nova ertu að skipuleggja og hanna nútímalegan, vísindalegastjórnaðan dýragarð. Lokamarkmiðið er að eiga farsælustu dýrafræðistofnunina en það gerir þú með því að byggja friðland fyrir dýrin, hýsa þau og styðja náttúrufræðiverkefni um allan heim. Hópur sérfræðinga og einstakar byggingar munu hjálpa þér að ná þessu markmiði.

Ark Nova notast við spil til að velja aðgerðir en staða þeirra á leikborðinu þínu segir til um hversu öflug aðgerðin er. Um leið og þú ert búin með aðgerðina fer hún fremst í röðina og verður veik aftur á meðan aðrar aðgerðir færast upp. Hægt er að uppfæra að gerðarspilin og gera þau enn sterkari. Haldið er utanum stig á tvo vegu, þú færð fræðgarstig fyrir að vera sýna dýr í dýragarðinum og þú færð verndarstig fyrir að gera eitthvað fallegt fyrir dýraríkið. Stigapeðin eru á sitthvorum endanum og færast á móti hvoru öðru (eins og i Rajas of the Ganges). Þegar þau ná hvoru öðru endar spilið og sá sem kemst með peðin eins langt frá hvoru öðru í endan er með flestu stigin.

Mér finnst spilið frábært en ég er alveg skelfilegur í því. Núna endaði ég með -37 stig sem er algert met hjá mér, samt var ég með eiginleika í dýragarðinum sem leyfði mér að hundsa eina kröfu á dýraspilunum (eins og að vera búinn að uppfæra dýr á næsta stig). Það fellur í sama flokk spila og Terraforming Mars, með að þú græðir á því að spila spilið oftar og margir eru komnir með tugi spilana, sem ég er klárlega ekki með (8). En mér finnst það samt betra en TM og ég vel það frekar. Og af einhverjum ástæðum, þó svo að spilið sé oft 2-3 klst finnst mér það aldrei "of langt".

Image
Grand Austria Hotel

Grand Austria Hotel

2
1

Á miðju Vínartímabilinu keppa stórkostleg kaffihús um viðskiptavini. Hvetjandi listamenn, mikilvægir stjórnmálamenn og ferða menn alls staðar að úr heiminum koma til Vínarborgar og þurfa á mat að halda og rúmi að sofa í. Þetta er þitt tækifæri til að breyta litla kaffihúsinu þínu í heimsfrægt hótel. Með því að ráða starfsfólk, uppfylla óskir gesta þinna og ná hylli keisarans verður kaffihús þitt að hinu stórkostlega Austurríkshóteli!

Frábært spil úr smiðju Ítalana Virginio Gigli og Simone Luciani. Gangverkið eru teningar, þeim er kastað og raðað upp á aðgerðarsvæði eftir tölunum sem upp koma. Ás gefur vínarbrauð og kökur, tvistur gefur kaffi og rauðvín, þristur undirbýr herbergin o.sv.fr. Þó má aldrei taka meira af kökum en vínarbrauði, aldrei má fá meira af kaffi en rauðvíni .... Aðföngin eru svo seld til viðskiptavinanna sem fara svo glaðir upp á herbergi ... ef herbergið þeirra er tilbúið, annars sitja þeir sem fastast. 

Það er eitthvað einstakt við þetta spil sem er erfitt að útskýra. Það spilast einstaklega hratt tveggja manna en er líka fínt fjögurra manna. Og viðbótin lofar einstaklega góðu, ég hlakka mikið til að prófa hana, einhverntíma þegar ég er ekki að kenna spilið. Það er ekkert skrítið að þetta spil er í 71. sæti á BGG.

Image
Dominant Species
Image
Dominant Species leikmenn

Dominant Species

4
1

Árið er 90.000 fyrir krist. Mikil ísöld nálgast óðfluga. Risabarátta um heimsyfirráð hefst á milli mismunandi dýrategunda. Dominant Species er leikur sem endurskapar á óhlutbundinn hátt pínulítinn hluta af fornri sögu: þungbærum ágangi ísaldarinnar og hvað það hefur í för með sér fyrir lífverur jarðarinnar sem eru að laga sig að jörðinni.

Hver leikmaður tekur að sér hlutverk eins of sex helstu dýraflokkunum - spendýr, fugla, froska, hryggleysingjum eða skordýrum. Hver byrjar leikinn meira og minna í náttúrulegu jafnvægi en það varir ekki lengi, áður en þú veist af er þetta orðin keppni um að hinir hæfustu komast af!

Spil sem mig hefur lengi langað að spila. Sem og sá sem átti spilið, en hann hefur aðeins náð einni spilun á því síðan 2013! Í níu tíma epískri baráttu við analysis-paralysis tókst honum að vinna þá tveggja manna spilun á lokaumferðinni, en ekki hafði honum tekist að koma spilinu aftur á borðið fyrr en nú. 

Svæðisáhrifaspil eru ekki endilega í miklu uppáhaldi hjá mér, ég er meira fyrir að gera bara eitthvað úti í horni og fá fyrir það stig. En ég lét leiðast og sé sko ekki eftir því. Það sem mér þótti lang áhugaverðast í spilinu var að einn leikmaður var þurrkaður út af borðinu í fyrstu umferð og náði ekki, vegna röðunar á leikmönnum, að komast inn á borðið í annari umferð, náði samt að klóra sig upp í annað sætið í lokin, og það finnst mér alltaf mjög virðingarvert í spilum. Ég hélt líka lengi vel að ég væri að skíttapa en raunin var að það voru næstum fjörtiu stig í næsta leikmann á eftir mér. Spilið tók ekki nema tvo og hálfan tíma eftir kennslu sem er nokkuð langt frá níu tima hryllingnum sem eigandinn lýsti. Þegar spilinu var að ljúka kom Valdi og falbauð sitt eintak sem ég greip á lofti, nú er það í safni mínu ásamt 82 öðrum spilum á topp 100 listanum á BGG.

Image
Shadows over Camelot
Einn af leiðöngrunum sem þú þarft að fara í Soc. Leggja þarf niður spil í hækkandi röð frá 1-5.

Shadows over Camelot

7
1

SoC er samvinnuspil með svikara, spil útilokana og handstjórnunar fyrir 3-7 leikmenn.

Hver leikmaður leikur einn af riddurum hringborðsins og þurfa þeir að vinna saman við að takst á við leiðangra, allt frá því að berjast við Svarta riddarann og í leitina að hinum heilaga kaleik. Þegar leiðangri er lokið fá leikmenn hvít sverð til að setja á hringborðið en ef þær mistakast er sverðið svart eða að umsátursvélum er bætt á borðið. Riddararnir eru að byggja upp meirihluta hvítra sverða umhverfis hringborðið áður en Camelot fellur.

Það hefur mikið verið talað um þetta klassíska spil frá Days of Wonder. Ég eignaðist það fyrir nokkru en hef ekki komið því á borðið enda er erfitt að koma spili fyrir svona marga leikmenn á borðið. Það er gott, ekki frábært, og mér finnst pínu skrítið hversu ofsalega það snýst við á lokametrunum. Þá endar það oft í baráttu við að berjast við umsátursvélarnar um leið og verið er að fylla upp í hringborðið.

Ég vil endilega prófa þetta aftur, en ég mun spila það töluvert mikið öðruvísi þá. Það er ljóst að það þarf að einbeita sér mjög að ákveðnum leiðöngrum fyrst og ekki stökkva í leitina að kaleiknum fyrr en spilið er alveg að verða búið. Góð skemmtun samt, skemmtilegt lokaspil á Spilavininni. Mér finnst samt Dead of Winter vera betra ;-)