Tíu daga gangur ... sem ætlar ekki að hætta

Skrifað af Hilmar Kári þann

Mán 18. Sept 2023 til Sun 24. Sept 2023

Vá, það er smá gangur núna, ég hef náð að spila alla daga síðustu tíu daga! Það er betra en oft áður, þar sem ég hef varla komist að borðinu svo vikum skiptir. Vonandi næ ég að halda þessu eitthvað áfram, það er amk. spilakvöld í kvöld ...

Mynd
Dice Kingdoms of Valeria

Dice Kingdoms of Valeria

2
3

Við Hildur grípum ansi oft í þetta skemmtilega kasta-og-skrifa spil sem minnir mjög á gangverkið í Valeria: Card Kingdoms og Space Base, nema hvað þú ert einungis að vinna með teninga. Einstaklega einfalt að kenna en þrátt fyrir einfaldleikann er samt oft fjári erfitt að taka réttar ákvarðanir.

Mynd
Azul

Azul

2
1

Annað spil sem auðvelt er að grípa í. Stundum á kvöldin langar okkur bara að spila eitthvað einfalt sem við kunnum bæði og þurfum ekki mikið að reyna á þær gráu, þó svo að spilið megi ekki vera of létt. Azul hefur einmitt þetta jafnvægi, auk þess sem slembnin kemur sterk inn með flísum sem dregnar eru upp úr poka

Mynd
Thunder Road: Vendetta

Thunder Road: Vendetta

5
1

Ég hef gaman af kappakstursspilum og hef langað í þó nokkurn tíma að prófa Thunder Road. Það stóð vel undir væntingum, er svona "klessum-á-alla" spil, ekkert er óhult. Gangverkið er nokkuð þétt þannig að ef einhver verður "úr" of snemma, þá lýkur spilinu líka snemma. Frábær skemmtun og klárt að spilið var hannað frá upphafi til að geta fengið nokkrar viðbætur.

Mynd
Marrakesh - Gameplay 2
Mynd
Marrakesh - Gameplay 1

Marrakesh

4
1

Marrakesh frá Stefan Feld er mjög týpískt stigasalat spil. Leikmenn ku fá stig fyrir að leysa vind við ákveðnar aðstæður ....

Fjórða spilið í borgarlínunni eftir Feld og það fyrsta sem var frumsamið (hin eru öll endurgerðir af eldri spilum Feld). Leikmenn hafa tólf leikpeð í byrjun og velja þrjú þeirra til að spila í hverjum hring. Þegar allir hafa valið er peðunum hellt í turn og ekki koma alltaf öll peðin út hinumegin. Þessi þrjú peð skilgreina hvaða aðgerðir leikmenn fá að taka í hringnum en svo velja þeir líka peðin sem koma út úr turninum til að styrkja aðgerðirnar. Þegar öll peðin eru búin er umferðin búin og spilaðar eru þrjár umferðir. Flestu stigin vinna.

Mynd
Planet Unknown

Planet Unknown

2
2

Spil sem kom, sá og flaug undir radarinn hjá ansi mörgum í fyrra. Kom á Kickstarter og rataði að einhverju leiti í verslanir. Í spilinu ertu að velja þér polyomino flísar og koma fyrir á plánetunni þinni. Hver flís hefur tvö merki og merkin segja til um hvaða brautir þú mátt færa þig upp á. Valið fer fram á lötu-Súsönnu (e. Lazy Suzanne) og þegar sá sem er í forhönd er búinn að velja fá allir hinir að velja á milli tveggja flísa sem eru beint fyrir framan þá. Spilið klárast þegar leikmaður er annað hvort búinn að fylla plánetuna eða þegar leikmaður getur ekki komið flís fyrir á plánetunni.

Mynd
Nimalia

Nimalia

2
1

Lítið, fallegt flísalagningarspil sem notar spil en ekki flísar. Leikmenn fá skilgreint í upphafi hvernig spilin skora, svipað og í Cascadia, og svo spila þeir niður þremur spilum í borðið hjá sér. Leiknar eru fimm umferðir þar sem hver stigahluti er skoraður allt að þrisvar sinnum. 

Mynd
Hadrian's Wall

Hadrian's Wall

2
1

Þar sem við Hildur höfum verið að skoða kasta-og-skrifa spil að undanförnu þótti mér gráupplagt að draga upp Hadrian's Wall, spil sem ég hafði aðeins spilað einu sinni, og þá einn.

Þrátt fyrir að reglurnar séu pínu flóknar og rosalega mikið að gerast á spilaborðinu er leikurinn tiltörulega einfaldur. Það sem mestu skiptir að mínu mati er að notast er við svipaða aðferð við að halda utan auðlindirnar þínar og seinna var notað í Legacy of Yu. Leikmenn fá í byrjun nokkrar tegundir af mislitum leikpeðum sem tákna hermenn, borgara, byggingamenn og þjóna auk steina til að byggja með. Þegar þú notar peðin hendir þú þeim aftur í sameiginlegan pott og þegar þú færð nýja þá sækir þú þá aftur. Umferðin er búin þegar þú ert búin með öll peðin eða þú getur ekki gert meira. Spilaðar eru sex umferðir og flestu stigin sigra.

Hildur stóð upp og sagði: Ég myndi klárlega spila þetta aftur! Geggjað!

Mynd
Ganz Schön Clever

Ganz Schön Clever

2
1

Enn eitt kasta-og-skrifa spilið. Fyrsta útgáfan er aðeins farin að láta á sjá, það eru komnar skemmtilegri útgáfur af slíkum spilum. En þó alltaf gaman að grípa í það.