Viðtal við Corey Thompson

Skrifað af Hilmar Kári þann

Corey Thompson er fréttastjóri Dice Tower Now fréttaveitunar, framleiðandi að þáttunum Above Board og einstaklega áhugasamur borðspilari. Borðspil.is settist niður með honum og spurði hann spjörunum úr, enda ætlar Corey að kíkja á Midgard ráðstefnuna í byrjun september.

Mynd
Corey Thompson - 6

Byrjum aðeins á byrjuninni, hver er Corey Thompson? Segðu okkur aðeins frá sjálfum þér, hvað gerir þú og hvar býrðu?

Það er reyndar ansi góð spurning því ég er ekki alveg viss um hvað ég geri eða hvar ég bý. Ég hoppa svolítið um í Kaliforníu, sér í lagi í norðurhlutanum, Sacramento, Nappa Valley og San Jose. Og hvað ég geri? Tæknilega er ég sestur í helgan stein, ég starfaði sem taugavísindamaður fyrir hátækniháskóla, verið dýralæknir og rithöfundur en nú er ég helst sestur í helgan stein. Það gefur mér góðan tíma til að gera helling í tómstundum. Ég stjórna fréttunum hjá The Dice Tower, tek viðtöl og skrifa greinar um borðspil. Ég stjórna hlaðvarpi sem heitir Dice Tower Now sem er vikulegur þáttur um allt það nýjasta í borðspilaheiminum. 

Það nýjasta á prjónunum er svo að stofna kvikmyndafyrirtæki með vini mínum Travis Oats, sem heitir Above Board. Í upphafi var áætlað að þættirnir okkar yrðu sýndir á Netflix en svo kom Covid og setti allt í biðstöðu þannig að á meðan erum við að framleiða efni fyrir Youtube. Við gerum hágæða- snarklikkuð myndbönd tengt borðspilaheiminum, sérstaklega gamansketsa. Við höfum tekið upp á klikkuðum hugmyndum eins og að spila borðspil í fallhlífastökki, við erum að fara til Bahama eyja í næstu viku til að spila borðspil neðansjávar með hákörlum og erum rétt í þessu að leggja lokadrög um að heimsækja dulúðlega eyju í norður Atlantshafi til að spila spil á eldfjalli! Þannig að ef þið þekkið einhverjar dulúðlegar eyjur þarna í norðri þar sem hægt er að spila borðspil á eldfjalli megið þið endilega láta mig vita!

Mynd
Corey Thompson - 1

Hvenær "dastu" fyrst ofan í borðspilaáhugamálið? Hvenær gerðir þú þér grein fyrir að þú værir fastur ofan í þessari kanínuholu?

Ég er gamall og er búinn að vera spila borðspil í langan tíma. Ég er reyndar búinn að vera lengi að eltast við sum af skrítnustu borðspilum sem ég get fundið. Ég ætla að segja að síðan á áttunda áratugnum hef ég verið að brjóta mig út úr fjöldamarkaðsspilunum og koma mér betur inn í áhugamálið en ekki síst með því að leita að "skrítnu" spilunum. Svo hef ég verið að vinna við áhugamálið síðastliðin tíu ár eða svo. Byrjaði í kringum 2015-2016 að aðstoða The Dice Tower við alls kyns hluti. Sumar ráðstefnur voru nálægt mér svo ég hjálpaði þeim að setja upp aðstöðu til að taka viðtöl og þess háttar. Og svo fór ég að skrifa fyrir The Dice Tower News um það bil árið 2016. Eftir það hefur þetta sprungið út og nú er ég nær vakinn og sofinn í áhugamálinu. En mér líður eins og það sé heil eilífð síðan! Áhugamálið stækkar á ógnarhraða og um leið og þú ert búinn að vera tendur því í fimm-sex ár finnst þér eins og þú sért búinn að vera hér frá upphafi. 

Mynd
Corey Thompson - 3

Og hvert er uppáhalds- borðspilið þitt?

Það er erfið spurning því það breytist mjög hratt. Mér hættir til að elska nýjasta nýtt, um leið og nýtt spil kemur út verð ég ofsa spenntur, "vá þetta er það besta sem ég hef á ævinni séð!" og svo er ég farinn í næsta spil! Ég dregst kannski helst að fjölspilara-einmennings-euro spilum þar sem ég er mest að vinna í mínum eigin heimi ótengt öðrum. Eitt af síðustu spilunum sem ég spilaði var Orianenburg Kanal eftir Uwe Rosenberg, tveggja manna spil sem mér fannst algjörlega frábært. Ég nældi mér í nýja Terra Mystica spilið, Age of Innovation, og jafnvel þó svo að spilið sé alveg 99% Terra Mystica eru samt frábærar framfarir í spilinu og mér líkaði einstaklega vel við það, það er mjög ofarlega á listanum mínum núna.

Alexander Pfister spil, Great Western Trail og Maracaibo hafa verið í uppáhaldi í langan tíma. Slagaspil eins og Texas Showdown sem er frábært sex manna slagaspil sem síðar var endurútgefið sem Seas of Strife. Rio Grande Games eru að endurprenta það á þessu ári.

Mynd
Corey Thompson - 4

Frábær spil allt saman. Hvað með gangverk, hver eru þín uppáhalds gangverk?

Vá! Ég er ekki alveg viss, ég þarf aðeins að hugsa núna.... Jú, til dæmis spil sem ýta undir þann sem gerði síðast, eins og Glen More II og Tokaido, þar sem sá sem var síðastur að gera gerir næst, mér finnst það frábært gangverk. Í Thebes getur þú eytt mismunandi löngum tíma í að gera aðgerðir og því lengri tíma sem þú eyddir því lengri tíma tekur það að fá að gera aftur. Önnur svipuð spil væru AuZtralia eftir Martin Wallace, jafnvel Patchwork gerir þetta.

Spil þar sem þú mátt ekki breyta röðinni á höndinni þinni og þú þurfir að spila þeim niður í ákveðinni röð, eins og Bohnanza og Luxor og Scout. Pínulítið skrítin gangverk en ég elska þau alveg.

Mynd
Corey Thompson - Dice Guy

Er eitthvað spil sem þú hefur spilað aftur og aftur og aldrei tekist að ná að vinna?

Ha ha, já alveg örugglega, ég vinn voða sjaldan í spilum. Ég segi reyndar oft að það séu til þrjár tegundir af spilurum, þeir sem fá ánægjuna út úr keppninni og því að sigra spilið. Svo eru aðrir sem hafa mest gaman að því að kanna hvað spilið hefur upp á að bjóða, hvað gerist ef ég geri þessa stórskrítnu aðgerð? Og svo að lokum þeir sem njóta þess að spila vegna félagslega þáttarins. Spilið er "þarna" en það er mest að spila vegna félagsskaparins. Ég er klárlega í könnunarhópnum, oft man ég ekkert hvort ég vann eða ekki, ánægjan er í spiluninni og að finna út hvernig spilið virkar, þannig að það er alveg heilt tonn af spilum sem ég hef aldrei unnið. Klárlega eru Terra Mystica spilin þar á meðal, ég held ég hafi aldrei unnið neitt af þeim!

Mynd
Corey Thompson - 5

Og þá skulum við taka smá U-beygju. Háv dú jú læk Æsland? Hvað veistu um Ísland.

Ég veit reyndar talsvert um landið, vinur minn bjó um tíma á Íslandi og ég hef heyrt mikið af sögum um land og þjóð. Og pabbi var mjög djúpt tengdur skákheiminum og sótti landið þegar stór einvígi voru haldin á Íslandi, meðal annars tölvueinvígi. Ísland er einn af hans uppáhaldsstöðum til að heimsækja. Þannig að ég veit um matinn og matarmenninguna, ég hef heyrt um veðrið, eldfjöllin og heita vatnið, söguna, víkingana. En ég hef samt aldrei komið til Íslands og ég er ákaflega spenntur að koma í september. Ísland er búið að vera mjög ofarlega á listanum mínum yfir lönd sem ég þarf að heimsækja, löngu fyrir borðspil og Midgard. Midgard er bara afsökun núna.

Hversu margar ráðstefnur heimsækir þú hvert ár? Og finnst þér stærri ráðstefnur eins og GenCon og Spiel betri eða líkar þér frekar við minni ráðstefnur eins og Midgard?

Ég fer á MJÖG margar borðspilaráðstefnur ár hvert. Síðasta ár hef ég farið á GenCon, Pax Unplugged, BGG Con og Origins. Einnig þær sem eru nærri mér eins og Cublicon, Pacificon, tvær Dice Tower ráðstefnur og nú er Spiel að hefjast aftur. Allar þær stærstu og fullt af minni. Auk þess sem ég held sjálfur nokkrar litlar ráðstefnur í hverfinu mínu, bara svona að fá fólk í heimsókn og spila. Þar að leiðandi falla ráðstefnur í marga flokka hjá mér.

Ég nýt þess að fara á verslunarráðstefnur, ég er með stórt safn af spilum og hef nákvæmlega enga sjálfsstjórn. Þannig að Spiel er frábær fyrir það. GenCon en með verslunarmöguleika en stóra verlsunarráðstefnan er samt Spiel. Þar er hægt að kaupa milljón spil og fyrir mig sem Bandaríkjamann finn ég þar oft spil sem ég mun aldrei sjá aftur.

Næst eru viðskiptaráðstefnur eins og síðasta GenCon var fyrir mig. Ég spilaði ekkert spil, mig minnir að ég hafi ekki keypt neitt spil, ég hélt bara fundi. Viðskipti alla leið. Það er mjög mikið öðruvísi.

Að lokum eru það spilaráðstefnur þar sem takmarkið er að fá fullt af fólki til að koma, bjóða upp á risastórt spilasafn og bara spila spil allan tímann. Þannig er BoardGameGeekCon (BGGCon) og einnig Dice Tower ráðstefnurnar, Dice Tower East í Orlando, Flórída og Dice Tower West í Las Vegas.

Hvað stærð varðar líkar mér best við minni ráðstefnur, mér finnst ekkert gaman í mannmergð. Stundum þegar ég er á GenCon eða Spiel þarf ég að labba aðeins í burtu frá aðalsýningasvæðinu og bara draga djúpt andann. Fela mig í sýningabásum vina og þess háttar. Því stundum er svo mikið af fólki að þú ert bara fastur í mannfjöldanum og ferð þangað sem straumurinn liggur. Það getur verið erfitt.

Hvernig sérðu fyrir þér ráðstefnur þróast í framtíðinni, bæði stærri og minni ráðstefnur. Helduru að þær haldi áfram að stækka? Stærri ráðstefnur stækki meira og meira en í staðinn fjölgi ráðstefnum sem liggja fólki nær?

Ég held að þær reyni allar að stækka. Það kom auðvitað mikil lægð á meðan að faraldurinn reið yfir, sumar ráðstefnur gáfust hreinlega upp og hættu á meðan aðrar náðu að þrauka. Til dæmis sló síðasta GenCon metið sitt með yfir 71.000 gesti. Og GenCon er sú stærsta í Bandaríkjunum. Ráðstefnur eru klárlega komnar aftur.

Það er samt alltaf rökræður um hvort minni ráðstefnurnar ættu að stækka. Þeir sem halda þær vilja það að sjálfsögðu en það er klárlega tvíeggja sverð. Þegar ráðstefna fer yfir ákveðna stærð verða hlutir sem þeim þótti áður gaman að gera ekki lengur framkvæmanlegir. T.d. ef þú vilt vera með stór, opin spilasvæði þar sem allir geta bara sest niður og spilað úr stóru safni spila, það er orðið nánast ómögulegt þegar þú ert með 10-20.000 manna ráðstefnu. Þá þarf að fara að setja einskonar ramma utan um hana.

Stærri ráðstefnurnar læra mikið á hverju ári, t.d. hvernig hægt er að hafa skipulagið betra. Litlu ráðstefnurnar hafa á móti vaxtaverki þar sem þær reyna hvað þær geta til að stækka og uppgötva svo að þær þurfa að breyta skipulaginu ef þær vilja verða risastórar.

Hvað varðar nýjar ráðstefnur tel ég að það verði smá bið á að þær komi fram, fólk er enn hrætt við að byrja eftir faraldurinn, hann sveimar reyndar enn yfir. Lítilli ráðstefnu sem ég ætla að halda heima hjá mér var frestað um þrjá mánuði vegna þess að það var töluverð aukning á smitum í grenndinni og það var aðeins of nálægt. Það verður því líklegast smá töf á nýjum ráðstefnum þangað til fólk sér hvernig landið liggur. Sérstaklega ef þú vilt reyna að hagnast eitthvað á þeim, eða jafnvel bara ekki tapa á þeim.

Mynd
Corey Thompson - 7

Hvernig myndir þú lýsa frábæru spilasafni fyrir þig sjálfan?

Já, ég hugsaði töluvert um þessa spurningu ... mér finnst skemmtilegast að upplifa hamingjuna í gegnum aðra, mér finnst gaman að skemmta öðrum og vera gestgjafinn. Borðspilasafnið mitt endurspeglar það svolítið, fólk finnur spil sem það hefur aldrei heyrt um áður og verður spennt að spila eða því dettur eitthvað spil í hug og ég á það til. Ég er samt farinn að byrja að sjá að það er ekki mjög praktíst, þú getur ekki átt öll spil í veröldinni. Spilin taka mikið pláss og skipulagið er ómögulegt.

En fyrir mig persónulega líkar mér best við að eiga sem fjölbreyttast úrval og nokkrar perlur sem leynast inn á milli og ég get dregið fram og komið fólki á óvart. Fyrir mér er það fullkomið. Ég var svo heppinn að eignast stórt hús í Nappa Valley og þar geymi ég flest spilin. Húsið er það stórt að fólk getur gist og það eru fimm spilaborð í spilaherberginu. Ég á yfir 3000 spil í safninu mínu og starfs míns vegna fæ ég oft gefins spil og það er gaman að eiga þau til blands við hin. Ég mun taka smávegis með mér á Midgard til að spila við ykkur.

Hvað með á ráðstefnum, hvernig er fullkomið ráðstefnuspilasafn?

Ráðstefnur eru erfiðari. Þú vilt hafa þessi sígrænu, þessi sem allir vilja spila. Terraforming Mars og Wingspan þurfa að vera þar. En þú þarft líka að hafa nýjustu spilin, þar liggur mesta spennan fyrir safninu. Ef þú getur nálgast spil áður en þau verða mjög aðgengileg, það mun láta safnið standa út úr. En auðvitað getur það verið áhætta því mörg ný spil eru hræðileg. Fólk verður spennt yfir nýjum spilum sem þau geta ekki nálgast og hafa ekki spilað og auðvitað er það þannig að þau gætu verið hræðileg.

Við lifum svo mikið á framtíðardýrkun, við viljum helst bara spila spil sem við getum ekki nálgast enn. Sem kemur inn á tímasetninguna á ráðstefnunni, margar ráðstefnur tímasetja sig í kringum Spiel og GenCon. Einhver fer á GenCon og kaupir öll nýju spilin þar og kemur með sér á ráðstefnuna sína. Sumir eru kallaðir Essen-burðardýrin, fólk sem er hreinlega ráðið til að kaupa allt sem kemur út þar. Ég hef unnið það starf, sitjandi á hótelherberginu klukkutímum saman til að punch-a og létta þar með kassana, setja kassa ofan í kassa til að þeir taki minna pláss og svo framvegis. Það er ekkert rosalega skemmtilegt!

Ég man t.d. að á einni Spiel ráðstefnunni skildi ég öll fötin mín eftir á hótelherberginu til að koma fleiri spilum með. Ég skildi eftir að mig minnir fernar buxur og fimm, sex skyrtur, skildi þær bara eftir á herberginu.

Hvað hefur komið þér mest á óvart og hver eru mestu vonbrigðin þegar kemur að spilum af Kickstarter?

Ég hef keypt rosalega mikið á Kickstarter, eiginlega alveg stjarnfræðilega mikið. Ég held að ég sé að nálgast 1000 verkefni sem ég hef stutt þar. Ég hef eiginlega verið viðloðandi Kickstarter alveg frá byrjun. Ég er frekar auðveldur, það er ekki mikið um eftirsjá eða vonbrigði. Í byrjun var ég kannski eins góður að skilja hismið frá kjarnanum en ég er orðinn miklu betri í því núna. Ég get alveg horft á verkefni og sagt með sjálfum mér, þetta á eftir að verða ágætt verkefni á meðan annað er augljóst að verði það ekki, þetta er greinilega bara búið til heima. Þetta spil er vel úthugsað á meðan að þetta er bara hugsað fyrir snöggan pening. Ég er orðinn miklu betri í að lesa þarna á milli.

Það voru raðir af spilum sem ég studdi við fyrir tíu árum sem reyndust svo vera skelfileg. Það var eitt sérstaklega sem ég man eftir sem hljómaði svo vel. Stokkasmiðsafbrigði með hringlaga borði. Allir hlutirnir voru geymdir inni í viðarbók. Þú opnaðir bókina og þar voru hringir sem snerust og meira. Fantasíu-hlutverkaþema ekki ósvipað Thunderstone þar sem þú notaðir stokkasmiðinn til að byggja upp hetjuna þína sem þú tókst svo með í ævintýri. Og það var augljóst að spilið deildi DNA með spilum eins og Talisman, Thunderstone og fleirum. Ég man ekki lengur hvað spilið heitir, mig minnir að það hafi verið "Raven" í titlinum, Ravencircle eða eitthvað svoleiðis. Kassinn var risastór trékassi og spilið var bara ekki vel hannað, það voru svolítil vonbrigði.

Kickstarter er orðið miklu meira eins og forpöntunarkerfi, finnst þér það ekki?  Það er orðið miklu meira en það þróunarsetur sem það var einu sinni. Stóru fyrirtækin nota það til að bjóða fólki upp á forpantanir á spilunum sínum og þar að leiðandi er kannski ekki eins mikið af spilum sem koma á óvart þar.

Ég sé í bakgrunninum hjá þér stafla af "Key" spilum, spil sem eru nokkuð auðþekkjanleg út af kössunum (ég á fimm Key spil og tvær viðbætur, innsk. blaðamanns) og eitt af þeim spilum sem kom mér mest á óvart af Kickstarter var Key Flow, sem er kortaspilaútgáfan af Key Flower. Það er enn í efstu fimm sætunum yfir uppáhalds spilin mín og ég bakkaði það bara vegna þess að ég bakkaði allt sem R&D gaf út, Key Flow var bara eitt af mörgum. Ég átti því ekki von á miklu en það reyndist verða eitt af mínum uppáhalds spilum, sérstaklega ef þú ert með stóran hóp. Spilið spilar sex manns og hreyfist frekar hratt, það er ekki mjög langt. Það er niðursoðið Key Flower niður í bara kjarnann og tekur ekki milljón klukkutíma að spila. Það er líklegast það spil sem kom mér mest á óvart.

Mynd
Corey Thompson - 8

Að lokum, er eitthvað sem þig langar að segja við alla aðdáendurna þína hér á Íslandi?

Alla báða? Tja, ég er mjög spenntur fyrir Above Board verkefninu, við erum kvikmyndafyrirtæki með töluverða fjármuni og höfum keypt mikið af tækjum til að taka upp frábært myndefni. Kvikmyndavélmenni, sýndarveruleiki, við erum að gera rosalega mikið skemmtilegt fyrir borðspilaiðnaðinn þannig að ég mæli með að þið fylgist vel með Above Board Youtube rásinni, þar verða frægar stjörnur, frábær skrif og skemmtileg og skrítin myndbönd.  

Á GenCon vorum við með stóra sviðssýningu með Chris Parnel úr SNL, Rick and Morty og Archer, Clark Gregg úr Agents of S.H.I.E.L.D., Utkarsh Ambudkar úr Ghosts og Critical Role þannig að við erum ekki yfir það hafin að finna gott fólk, skrifa góða sketsa og gera frábær myndbönd. Fylgist með!